Hagsæld
Málþing fyrir stjórnir og framkvæmdastjórnir
Í nóvember blés Festa til sérstaks sjálfbærni málþings fyrir stjórnir og framkvæmdastjórnir aðildarfélaga, undir heitinu Framsæknar stjórnir – arðsemi, ábyrgð og áhrif. Þessi viðburður var sá fyrsti sinnar tegundar hjá Festu, sérsniðinn að stjórnarfólki í fyrirtækjum og stofnunum. Málþingið fór fram á Grand Hótel 8. nóvember og mættu fulltrúar úr stjórnum og framkvæmdastjórnum fjölmargra aðildarfélaga. Arnar Másson, stjórnarformaður Marel og stjórnarmaður í Festu, stýrði málþinginu, og í hópi frummælenda voru leiðandi sérfræðingar á sviði sjálfbærni og stjórnarhátta. Elva Rakel Jónsdóttir greindi áhrif umhverfis- og alþjóðamála á rekstrarumhverfið, Tómas N. Möller fór yfir sjálfbærnireglugerðir, Rakel Eva Sævarsdóttir kynnti þau tækifæri sem felast í sjálfbærni í rekstri, Ingunn Agnes Kro fór yfir tengsl sjálfbærni og skilvirkni og Ásthildur Otharsdóttir fjallaði um skipulag stjórna á sjálfbærnistarfi. Elín Jónsdóttir, Tómas Már Sigurðsson, Andri Þór Guðmundsson og Hrefna Sigfinnsdóttir tóku þátt í pallborði í lok málþingsins.
Fullt var út úr dyrum, sem sýnir að mikil þörf var á vettvangi til að kafa dýpra í sjálfbærnimál með fólki á stjórnarstigi. Ljóst er að viðburður þessar tegundar verður hluti af viðburðardagskrá Festu komandi ár.
Stefna Festu uppfærð
Stefna Festu var uppfærð árið 2024 með áherslu á þrjár meginstoðir sjálfbærni: fólk, jörð og hagsæld. Meginmarkmið stefnunnar er að hafa jákvæð og auðgandi áhrif á umhverfi og samfélag og jafnframt að auðvelda og flýta þróun í átt að hringrásarhagkerfi og sjálfbæru atvinnulífi.
Framtíðarsýn Festu er sú að framtak aðildarfélaga leiði til sjálfbærs samfélags. Í slíku samfélagi fara velferð fólks, náttúra og hagsæld hönd í hönd.
Skoða stefnu
Viðburður á Innovation Week – Sjálfbærar fjárfestingar
Sem hluti af Íslensku nýsköpunarvikunni 2024 (Innovation Week) skipulagði Festa ásamt Sjávarklasanum viðburð um sjálfbærar fjárfestingar. Þar komu saman fjárfestar, sprotafyrirtæki og önnur fyrirtæki til að ræða hvernig fjárfestingarfé getur drifið sjálfbæra uppbyggingu. Lögð var áherslaá að sjálfbærnivegferð fyrirtækja skili ávinningi til lengri tíma, bæði í rekstri og í viðskiptatækifærum, og að fjármagnseigendur hafi mikilvægu hlutverki að gegna með því að beina fjármunum í verkefni sem stuðla að jákvæðum samfélags- og umhverfisáhrifum. Þessi viðburður tengir hagsældarhugsjónir Festu beint við fjármálageirann og sýnir hvernig ábyrg fjárfesting er hluti af sjálfbærninni.
Sjálfbærniskólinn
Á árinu hrinti Festa af stað nýjung í fræðslustarfi sínu með Sjálfbærniskólanum sem var haldinn í samstarfi við Opna háskólann. Námið samanstóð af þremur námskeiðum sem náðu yfir vítt svið sjálfbærni. Á námskeiðunum fóru ýmsir sérfræðingar yfir grunnþætti sjálfbærni fyrir ólíka markhópa, t.d. fyrir stjórnendur, millistjórnendur og starfsfólk aðildarfélaga. Tilgangurinn var að fræða breiðari hóp innan fyrirtækjanna um lykilhugtök og aðferðir í sjálfbærnimálum, auka færni þeirra sem vinna að þessum málum og hvetja alla starfsmenn til þátttöku. Viðtökurnar voru góðar og mun Festa byggja ofan á þetta fræðslustarf á komandi ári.
Hvatningarverðlaun
Festa kom að veitingu
Hvatningarverðlauna um framúrskarandi framtak á sviði umhverfismála og nýsköpunar í sjálfbærni 2024. Verðlaunin voru veitt í samstarfi við Creditinfo og tengdust birtingu lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki ársins. Krónan hlaut hvatningarverðlaun um framúrskarandi framtak um nýsköpun á sviði sjálfbærni fyrir verkefnið
Heillakarfan – nýjung í smáforriti Krónunnar sem hvetur viðskiptavini til umhverfisvænni innkaupa. Heillakarfan gefur notendum stig fyrir að kaupa vörur sem skora hátt í umhverfis- og heilsufarslegu tilliti og hjálpar þannig fólki að taka upplýstar ákvarðanir.
Þá hlaut Steypustöðin hvatningarverðlaun um framúrskarandi framtak á sviði umhverfismála. Verðlaunin hlýtur fyrirtækið fyrir sérstakt framtak sitt á rafvæðingu bílaflota síns. Nú samanstendur rafmagnsfloti fyrirtækisins af 6 rafmagns steypubílum, 1 rafmagns dráttarbíl og 2 „hybrid“ steypudælum, eða 9 tækjum í heildina og stefnan er sett á að 70% flotans verði knúinn á endurnýjanlegum orkugjöfum árið 2032.
Í dómnefnd sátu Þórólfur Nielsen, forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni hjá Landsvirkjun og stjórnarmaður hjá Festu, Elín Jónsdóttir, lektor við lagadeild Háskólans á Bifröst, Stefán Kári Sveinbjörnsson verkefnastjóri sjálfbærni hjá Festi og Arent Orri Jónsson Claessen forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
Hvatningarverðlaun fyrir sjálfbærniskýrslu ársins hætt
Festa hefur frá árinu 2018 í samstarfi við Viðskiptaráð Íslands og Stjórnvísi, veitt árleg hvatningarverðlaun fyrir sjálfbærniskýrslu ársins til að hvetja til framúrskarandi upplýsingagjafar í sjálfbærni. Í ljósi hraðrar þróunar á sviðinu og nýrra laga var ákveðið að fella verkefnið niður. Festa þakkar Viðskiptaráði Íslands og Stjórnvísi fyrir farsælt samstarf.
Til baka