04.12.2023
Aðsend grein eftir Guðnýju Nielsen, framkvæmdastjóra SoGreen
Áhersla SBTi á mótvægisaðgerðir utan virðiskeðju
Senn líður að útgáfu leiðbeininga Science Based Targets initiative (SBTi) um það sem þau kalla
Beyond Value Chain Mitigation (BVCM). Þar mæla SBTi eindregið með því að fyrirtæki fjárfesti einnig í mótvægisaðgerðum utan virðiskeðju sinnar vegna þess að gríðarstór hluti losunar heimsins á sér stað utan virðiskeðja fyrirtækja og markmið ríkja duga ekki til að halda hlýnun innan 1,5°C.
Drög SBTi að leiðbeiningunum voru birt í júní og þar er að merkja ákveðna stefnubreytingu því þrjú af þeim sex viðmiðum, sem fyrirtæki eru hvött til að leggja til grundvallar við val á slíkum mótvægisaðgerðum, falla utan áður hefðbundnari áherslum SBTi:
Framleiðsla kolefniseininga með menntun stúlkna
Íslenska frumkvöðlafyrirtækið
SoGreen er einmitt stofnað til höfuðs ofangreindum þremur áskorunum í þeim tilgangi að virkja flæði loftslagsfjármagns til menntunar stúlkna með framleiðslu fyrstu kolefniseininga sinnar tegundar. Vísindsamfélagið hefur lengi bent á áhrifamátt þessarar mikilvægu loftslagslausnar. Menntun eykur þekkingu og vitund stúlkna um réttindi sín, sem eflir ákvörðunarvald þeirra í mikilvægum málum er snerta líf þeirra. Aukið menntunarstig stúlkna dregur hratt úr tíðni barnahjónabanda og seinkar fyrstu þungun, sem leiðir til samdráttar í losun.
130 milljón stúlkur fá ekki gengið í skóla í dag. Verkefnið er því ærið og ljóst að nýju leiðbeiningar SBTi geta virkjað fjölda metnaðarfullra fyrirtækja til þátttöku. Fyrstu verkefni SoGreen eru þegar hafin í Sambíu, í samvinnu við hjálparsamtök sem sérhæfa sig í menntun stúlkna. Hátt í fimmtíu fjölbreytt íslensk fyrirtæki, þar af fjögur sem hafa sett sér markmið um samdrátt í losun samkvæmt SBTi, hafa tryggt sér þær óvirku kolefniseiningar í bið sem verkefnin framleiða. Að vottun lokinni, þegar loftslagsávinningurinn hefur áunnist verða einingarnar virkjaðar og afskráðar.
Það vill gleymast að þessar jaðarsettu stúlkur eru oft fyrstu fórnarlömb loftslagsbreytinga því þegar náttúruhamfarir valda uppskerubresti og lífsviðurværi berskjaldaðra fjölskyldna glatast grípa örvæntingafullir foreldrar til þess ráðs að taka dætur sínar úr skóla og gifta þær frá sér til þess að létta byrðar heimilisins. Þennan vítahring þarf að rjúfa og SoGreen ætlar ekki að láta sitt eftir liggja.
Menntavegur 1
101 Reykjavík
festa@sjalfbaer.is