07.10.2024
Elsku sjálfbærnisérfræðingar – við heyrum í ykkur
Sjálfbærni hefur síðustu ár verið sett kröftuglega á dagskrá í nánast öllum kimum samfélagsins. Bæði hafa valkvæðar aðgerðir aukist en einnig kröfur sem skylda er að uppfylla. Í þessu risastóra samfélagslega umbreytingarverkefni er kannski eðlilegt að meðbyrinn sé ekki línulegur, en undanfarin misseri hafa sjálfbærnisérfræðingar um allan heim fundið fyrir bakslagi þegar kemur að meðbyr með aðgerðum í þágu sjálfbærni. Við hjá Festu erum meðal annars tengslavettvangur fyrir sjálfbærnisérfræðinga á Íslandi og höfum einnig fundið fyrir þessari orðræðu.
„Illu“ er best af lokið?
Hver er ástæðan? Áhyggjur af grænþvotti hafa aukist, stjórnvöld um allan heim eru stundum sökuð um að taka ekki næga ábyrgð á vandanum og með aukinni skautun verður erfiðara að ganga í takt. Nýjar kröfur kalla á aukna þekkingu og fjárfestingu. Verðbólga og óhagstætt efnahagsumhverfi þýðir að stjórnendur þurfa að skera niður og eiga þá til að draga úr sjálfbærniaðgerðum. En eins og með svo margt annað, borgar sig yfirleitt ekki að fresta vandanum.
Þrátt fyrir þetta, er full ástæða til að vera vongóð.
Stóra myndin
Á þessu ári hafa náðst margir mælanlegir sigrar í átt að sjálfbærni. Orkuskiptin eru í fullum gangi um allan heim, sífellt verður til ný tækni fyrir umhverfisvænari framleiðslu og sífellt fleiri eru að endurskoða virðiskeðjuna sína sem getur skilað stórfelldum sparnaði. Hægt en örugglega eru mörg fyrirtæki farin að taka sjálfbærni inn í kjarnastarfsemi sína með raunverulegum markmiðum, sem sýnir að breytingarnar birtast ekki bara í formi árlegrar sjálfbærniskýrslu.
Græn tækni í sókn
Tækni sem styður sjálfbærni hefur aldrei verið í jafn miklum vexti og eins fjölbreytt. Endurnýjanlegir orkugjafar hafa lækkað í verði og orðnir mun aðgengilegri fyrir fleiri en bara Íslendinga. Þá hjálpar nýsköpun innan hringrásarhagkerfisins til við að nýta auðlindir betur. Þessar tækninýjungar skapa ný tækifæri fyrir fólk og fyrirtæki til að innleiða sjálfbærar lausnir sem eru bæði hagkvæmar og sjálfbærar til lengri tíma litið.
Samstaða hjá yngri kynslóðum
Yngri kynslóðir kalla hátt og
skýrt eftir aðgerðum. Þessar kynslóðir hafa ekki aðeins mikil áhrif á neysluvenjur með kröfum um sjálfbærari vörur og þjónustu, heldur eru þær einnig leiðtogar framtíðarinnar.
Efnahagsleg tækifæri og hugarfar
Sjálfbærni getur leitt af sér óteljandi ný efnahagsleg tækifæri. Grænum atvinnugreinum er að fjölga hvort sem er á sviði orkumála, landbúnaðar eða annarrar framleiðslu. Nýsköpun og fjárfestingar í sjálfbærum lausnum skapa ný störf og efla hagkerfið. Fyrirtæki sem leggja áherslu á sjálfbærni eru líkleg til að ná langtímaárangri, bæði vegna þess að þau uppfylla vaxandi kröfur neytenda, og vegna þess að þau taka forystu í því að þróa nýjar lausnir. Að horfa á sjálfbærni sem tækifæri frekar en hindrun er lykilatriði hér.
Sjálfbærni er framtíðin. Ekki tískubylgja.
Það er mikilvægt að muna að þrátt fyrir andstöðu við ákveðnar útfærslur og áskoranir af ýmsum toga er sjálfbærni framtíðin. Loftslagsbreytingar, auðlindanýting og mengun eru raunveruleg vandamál sem ekki verður hægt að hunsa. Því fyrr sem við tökumst á við þessi vandamál, því betri verða tækifærin til að snúa við þróuninni og byggja betri heim fyrir komandi kynslóðir. Sjálfbærni var aldrei og er ekki tískubylgja, heldur nauðsynleg þróun til að tryggja farsæla framtíð jarðarinnar og fólksins sem á henni býr.
Það er eðlilegt að stórar breytingar mæti andstöðu, en það er akkúrat á þessum stundum sem við megum ekki missa dampinn.
Við hjá Festu finnum fyrir miklum áhuga á viðburðum okkar og nærveru í öllum kimum samfélagsins. Það er vongefandi og við tökumst á við verkefnið með auðmýkt og ábyrgð. Við hlökkum til að halda áfram að leggja okkar af mörkum til þess að íslenskt samfélag og atvinnulíf verði leiðandi í sjálfbærnimálum.
Menntavegur 1
101 Reykjavík
festa@sjalfbaer.is