29.08.23
Lokaniðurstöður starfshópa verkefnisins Auðlindin okkar, leitt af Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra, voru kynntar í dag. Markmið verkefnisins er hagkvæm og sjálfbær nýting sjávarauðlinda í sátt við umhverfi og samfélag og byggir á þremur stoðum sjálfbærrar þróunar: umhverfi, efnahag og samfélagi.
Samhliða verkefninu voru nokkrir einstaklingar úr ólíkum áttum fengnir til að skrifa sínar vangaveltur um sáttina um sjávarútveg, þar sem efnistök voru frjáls. Hrund Gunnsteinsdottir,
framkvæmdastjóri Festu, var meðal þeirra og má finna grein hennar í skýrslu verkefnisins.
Nokkur velvalin orð úr greininni fylgja hér:
„Þær breytingar sem eru að eiga sér stað kalla á kerfislægar breytingar, öðruvísi leiðir til ákvarðanatöku en við erum vön og markvissari áherslur á sjálfbærni. Þetta á við um hafið og sjávarútveg líka. Því betur sem við stillum okkur inn á að lesa í og skilja áhætturnar, möguleikana í núverandi stöðu, höfum ásetning um hvernig framtíð við viljum, getum við styrkt viðbrögð okkar, seiglu og samkeppnisforskot.“
„Nýtt samhengi þarf að innihalda ásetning um að við tökum ekki einstaka aðgerðir úr samhengi og lítum á þær sem aðskildar stærri, lifandi heild, hvort sem um er að ræða einstaka parta eins og fiskveidistjórnunarkerfin, siglingarleiðir, ræktun og nýting, fagurfræði lífsins í hafinu, tilraunir eða grænar lausnir í hafi. Þjóðarsátt um hagsmuni heildarinnar og komandi kynslóða má ekki víkja fyrir skammtíma hagsmunum, markmiðum og aðferðum sem eru barn síns tíma.“
„Við erum fámennt land, hagsmunir í sjávarútveginum eru sterkir og það getur verið bæði flókið og sársaukafullt að gera breytingar. En breytinga er þörf, á því leikur enginn vafi.“
Í greininni leggur Hrund til fjögur leiðarstef sem gætu verið höfð til hliðsjónar við gerð þjóðarsáttar um hafið og sjávarútveginn. Þau eru:
1. Nýtt samhengi og breytt ákvarðanataka
2. Framtíðarsýn og áttaviti
3. Langtímahugsun
4. Sjálfstæði og samkeppnisforskot
Skýrsluna, og greinina í heild, má nálgast hér:
https://lnkd.in/eQyzQrkq
Þá fögnum við áherslum á sjálfbærni og hringrásarhagkerfið sem koma fram í tillögu að framtíðarsýn íslensks sjávarútvegs á myndinni sem fylgir þessari frétt.
Menntavegur 1
101 Reykjavík
festa@sjalfbaer.is