09.08.23

Kolefnishlutleysi og að nettólosun sé núll - hver er munurinn?

💡 Hver er munurinn á kolefnishlutleysi (e. carbon neutral) og að nettólosun sé núll (e. net-zero)?

Bæði hugtökin vísa í jafnvægi í losun.

KOLEFNISHLUTLEYSI
Kolefnishlutleysi er átt við það þegar binding kolefnis verður jöfn á við kolefnislosun. Til þess að fyrirtæki nái kolefnishlutleysi, þarf það að vita hversu mikið það losar og síðan jafna losunina með því að kaupa kolefniseiningar sem skila sér í bindingu. Hægt er að binda kolefni t.d. með skógrækt eða tækni sem fangar og geymir þau.

👉 Fyrirtæki getur “náð” kolefnishlutleysi án þess að draga úr beinni losun, ef það bindir nógu mikið á móti. Á heildina litið er það er ekki nóg til að ná loftslagsmarkmiðum heimsins, við verðum líka að draga úr losun.

👉 Kolefnishlutleysi er oft notað í samhengi við beina losun fyrirtækis (umfang 1 og 2). Umfang 1 er losun sem verður til við daglegan rekstur af starfsemi og umfang 2 er losun vegna orkunotkunar, en fyrirtæki eru hvött til þess að telja umfang 3 með. Umfang 3 er það sem nær yfir alla virðiskeðjuna, eða losun sem verður hjá þriðja aðila til að fyrirtæki geti stundað sína starfsemi.

Fleiri hugtök!?
Í vikunni gaf umhverfisfyrirtækið South Pole út nýtt hugtak sem þau telja vera meira lýsandi yfir þær loftslagsfjárfestingar sem farið er í á þessari vegferð. Hugtakið er “Funding Climate Action (FCA)” og kemur í staðinn fyrir kolefnishlutleysi. Þessu hefur verið tekið vel víða, þ.a.m. á meðal Science Based Target initiative. Nánar hér: https://lnkd.in/dp_N62Yu

ÞEGAR NETTÓLOSUN ER NÚLL
Þegar nettólosun er núll (net-zero) er átt við markmið sem oft er notað í samhengi við heiminn allan, einstök ríki eða atvinnugreinar. Til þess að takmarka hnattræna hlýnun við 1,5°C verður nettólosun af mannavöldum að vera orðin núll á árinu 2050. Hér er átti við losun allra gróðurhúsalofttegunda sem valda hlýnun.

👉 Fyrirtæki sem leggur sitt af mörkum í þessa vegferð (e. net-zero targets) notar hugtakið oftast í samhengi við kolefni (e. carbon net-zero) þar sem almenna hugtakið er notað yfir allar gróðurhúsalofttegundir. Byrja þarf á því að draga með öllum leiðum úr losun, eins nálægt núllinu og hægt er og binda restina með kolefniseiningum.

👉 Gengið er lengra en í kolefnishlutleysi og ásamt beinni losun er umfang 3 tekið með, þ.e. virðiskeðjan. Það þýðir að t.d. losun birgja skrifast með í reikninginn.

👉 Science Based Targets initiative, samtök sem staðfesta að markmið og aðgerðaáætlanir fyrirtækja séu í samræmi við markmið Parísarsamkomulagsins, styðjast við þessa aðferðafræði.

Bæði hugtökin lýsa mikilvægum loftslagsaðgerðum, en að ná markmiðinu um að nettólosun verði núll nær víðar og til lengri tíma.

Þakkir til Kolbrúnar Fríðu Hrafnkellsdóttur, sjálfbærniverkfræðings hjá South Pole fyrir gagnlegar upplýsingar!

Share by: