12.11.24
Festa - miðstöð um sjálfbærni hélt á dögunum málþingið Framsæknar stjórnir - arðsemi, ábyrgð og áhrif. Málþingið, sem var fyrsti viðburður Festu sem eingöngu var ætlaður stjórnum og framkvæmdastjórnum aðildarfélaga, var haldið á Grand Hótel þann 8. nóvember.
Fullt var á málþingið og ljóst er að mikil þörf var á sérstökum viðburði til þess að fara á dýptina með stjórnarfólki þegar kemur að sjálfbærnimálum. Þessi ásókn og áhugi sýnir að stjórnarfólk er að taka sjálfbærnimálin alvarlega sem er bæði ánægjulegt en líka í takt við þróun í Evrópu og annars staðar í heiminum.
Arnar Másson, stjórnarformaður Marel og stjórnarmaður í stjórn Festu, stýrði málþinginu þar sem einvala hópur sérfræðingar á sviði sjálfbærni, stjórnarhátta og viðskipta deildu þekkingu sinni og reynslu.
Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastýra Festu, fjallaði um þau umhverfis- og alþjóðamál sem hafa mótandi áhrif á rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja.
„Virk áhættustýring, er númer eitt, tvö og þrjú. Að skilja hvernig við getum mótað fjárfestingar í innviðum og eignum út frá þessari þróun. Að skilja markaðsþróun framtíðar miðað við þessar sviðsmyndir og svo að marka sér stefnu, sem gerir innri og ytri haghöfum ljóst, hver séu bæði neikvæð og jákvæð áhrif fyrirtækisins á umhverfis og félagslega þætti og hvernig verði síðan unnið með þá þætti. Með öðrum orðum, með sjálfbærniupplýsingagjöf, sem er síðan fylgt eftir með afgerandi umbreytingaráætlun.“ Þetta voru þau afar viðeigandi lokaorð Elvu Rakelar.
Í kjölfarið ræddi Tómas N. Möller, yfirlögfræðingur hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna og stjórnarformaður Festu, um áhrif nýs regluverks á umboðsskyldu og samsetningu stjórna.
Rakel Eva Sævarsdóttir, stofnandi Trail Sustainability Consulting og stjórnarkona í stjórn Festu, fjallaði um tækifærin sem felast í því að horfa til sjálfbærni við rekstur fyrirtækja og hvernig hægt er að tengja sjálfbærni við arðsemi. Ingunn Agnes Kro, stjórnarformaður RARIK og stjórnarkona í fleiri stjórnum, ræddi kosti þess að vinna skipulega að mikilvægisgreiningu í rekstrinum, og Ásthildur Otharsdóttir, meðeigandi Frumtaks og stjórnarkona, fjallaði um hvernig stjórnir geta best skipulagt sjálfbærnistarf sitt.
Málþinginu lauk með líflegu pallborði þar sem reynslumiklir stjórnendur og sérfræðingar ræddu um framtíðarsýn og áskoranir í sjálfbærnistarfi. Í pallborðinu sátu Elín Jónsdóttir, lektor við lagadeild við Háskólann á Bifröst, Tómas Már Sigurðsson forstjóri HS Orku, Andri Þór Guðmundsson stjórnarformaður Viðskiptaráðs og forstjóri Ölgerðarinnar og Hrefna Sigfinnsdóttir framkvæmdastjóri Creditinfo.
Ljósmyndari: Ernir Eyjólfsson
Menntavegur 1
101 Reykjavík
festa@sjalfbaer.is