28. janúar 2021

Upptökur frá Janúarráðstefnu Festu 2021 má nálgast hér:


Yfirskrift Janúarráðstefnu Festu í ár var Nýtt upphaf – The Great Reset sem er jafnframt heiti á átaki World Economic Forum þar sem áhersla er lögð á sjálfbæra uppbyggingu samfélaga og alþjóðasamstarfs í kjölfar heimsfaraldursins. Á ráðstefnunni veltum við fyrir okkur hvað Nýtt upphaf felur í sér fyrir íslenskt samfélag, atvinnulíf, fjárfestingar og pólitík. Skilaboðin eru þau að nú sé einstakt tækifæri til að hefja Nýtt upphaf, en það er ekki gefið að við grípum það. Það kom skýrt fram að tíminn er knappur. Við spurðum: Hvað þarf til? 



Ráðstefnan var rafræn og eru upptökur nú aðgengilegar, en það voru yfir 3000 manns sem fylgdust með beinni útsendingu af ráðstefnunni.



Ensk erindi eru með íslenskum texta. Styrktaraðilar Janúarráðstefnu Festu 2021 voru: Landsbankinn, Íslandsbanki, Landsvirkjun, Vörður tryggingar og Sænska sendiráðið á Íslandi. Án þeirra stuðnings hefði ráðstefnan ekki verið með svo veglegum hætti og raun ber vitni og opin öllum án endurgjalds. Festa er styrktaraðilum afar þakklát og alveg ljóst af skráningar- og áhorfstölum að áhugi á sjálfbærni er mjög mikil.



“Keynote” erindin voru flutt af einvala liði alþjóðlegra leiðtoga á sviði sjálfbærni: Halla Tómasdóttir, Nicole Schwab, Michele Wucker, Sasja Beslik og John McArthur.



Áherslur á mikilvægi langtíma stefnumörkunar og mælanlegra markmiða, viðhorfsbreytinga og að fjármagn sé lykil-hreyfiafl í Nýju upphafi voru áberandi í erindum og panelumræðum. Skammtímahugsun, sem birtist til dæmis í því viðhorfi að ársfjórðungsuppgjör lýsi best frammistöðu stjórnenda og fyrirtækja, þyrfti að endurskoða og árangursmæling byggja á vísindalegum og mælanlegum sjálfbærni markmiðum til lengri tíma.
Tengslin á milli sjálfbærs reksturs, seiglu, aðlögunarhæfni og stöðugrar nýsköpunar hjá fyrirtækjum komu einnig skýrt fram á ráðstefnunni. Mikilvægi nýsköpunar í stjórnsýslu og hjá opinberum stofnunum var einnig undirstrikuð. Mikilvægi gjöfuls samtals og samstarfs á milli fyrirtækja og yfirvalda fór ekki á milli mála. Lögð var áhersla á að við gefum okkur rými og tíma til að skilja við það sem ekki þjónar sjálfbærum markmiðum, höfum hugrekki til að endurhanna eða skapa ný kerfi, vörur og þjónustu, í Nýju upphafi.




Festa þakkar öllum þeim sem komu fram, tóku þátt í umræðum og unnu með okkur að framkvæmd ráðstefnunnar.




 Halla Tómasdóttir forstjóri B Team og Hrund Gunnsteinsdóttir   framkvæmdarstjóri Festu

Halla Tómasdóttir forstjóri B Team setti fram fyrir okkur þrjá þætti sem nauðsynlegt væri að fyrirtæki hugi að í Nýju upphafi: langtímahugsun, mælanleg markmið tengd sjálfbærni og viðhorfsbreytingar. Það er hlutverk fyrirtæki að skapa virði fyrir alla hagaðila. Halla talaði þá um mikilvægi þess að við sjáum öll okkar hlutverk sem leiðtogar. – Leiðtogar sem móta framtíðina eins og við viljum sjá hana – leiðtogar sem sem þjóna heildinni.

John McArthur forstjóri miðstöðvar um sjálfbæra þróun hjá Brookings Institute lagði áherslu á hlutverk heimsmarkmiðanna í sínu erindi; ,,Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru leiðarljós til að rata út úr þessari þoku, hjálpa okkur út úr kreppunni og á betri stað.” Hann sagði jafnframt að það sé mikilvægt að vera í samstarfi við ungt fólk til að skerpa á færni þeirra til að taka ákvarðanir í dag sem kynslóð þeirra reiðir sig á.

Michele Wucker, metsöluhöfundur og forstjóri The Gray Rhino & Company talaði um hin risa stóru auðhunsuðu verkefni sem blasa við okkur – sem hún kallar gráan nashyrning. Það er til gífurlega mikils að vinna að eiga við áskoranir á borð við loftslagsvánna og ójöfnuð í heiminum á meðan þær eru tiltölulega ‘litlir nashyrningaungar’, í stað þess að bíða eftir að þessar áskoranir vaxi í stóra nashyrninga og verði illviðráðanlegir og afar kostnaðarsamir.

Nicole Schwab, framkvæmdarstjóri Nature Based solutions hjá World Economic Forum, hvatti ráðstefnugesti til að stefna í einu og öllu að kolefnishlutlausum, náttúrujákvæðum hagkerfum. Hún sagði okkur frá því að áhættuskýrsla World Economic Forum 2020 útlistaði að fimm stærstu áhætturnar sem blasa við fyrirtækjum og samfélögum væru allar tengdar umhverfismálum.

Sasja Beslik sem hefur um árabil unnið á sviði sjálfbærra fjárfestinga lagði til að nauðsynlegt sé að teikna upp nýjan samfélagssáttmála á milli fjármálastofnana og samfélagsins. Þrátt fyrir að fyrirtæki heimsins eigi langt í land þegar kemur að því að afstýra loftslagsvánni þá erum við komin á þá braut að alþjóðlegir fjárfestar leita nú eftir sjálfbærum fjárfestingar kostum sem aldrei fyrr.

Hrund Gunnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Festu stýrði fundi og pallborðsumræðum.

 Nicole Schwab og Sasja Beslik

 John McArthur og Michele Wucker

„Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru leiðarljós til að rata út úr þessari þoku, hjálpa okkur út úr kreppunni og á betri stað. Ákveðnir vegvísar sem geta hjálpað svo mörgum, hverjum á sínum stað, til að takast á við kreppuna, hvort sem hún er hagræn, samfélagsleg eða umhverfistengd.“



Leiðtogar úr íslensku atvinnulífi tóku þátt í pallborðsumræðum um hið Nýja upphaf í íslensku samhengi. 



Líkt og í “keynote” erindum var rauði þráðurinn tengdur því að hugsa til lengri tíma og mikilvægi þess að fyrirtæki setji sér gagnsæ og mælanleg markmið.



Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir nýsköpunarráðherra lagði áherslu á að mikilvægi öflugs samstarfs milli hins opinbera og einkageirans og að heimsfaraldurinn hafi minnt okkur á það hvers virði það er að hafa hér sterk framúrskarandi fyrirtæki. Hún sagði jafnframt að slíkt samstarf væri undirstaða nýsköpunar og sjálfbærrar framtíðar.


Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel sagði að nýsköpun með sjálfbærni að leiðarljósi væri lykill að árangri, seiglu og afkomu fyrirtækja. “Nýsköpun á að vera stöðugt markmið, má ekki draga úr henni þótt afkoma dragist saman tímabundið,” sagði Árni Oddur ennfremur. Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Meniga ræddi um mikilvægi þess að hugsa á grundvelli sjálfbærni og vera tilbúin með vöru þegar eftirspurn væri til staðar á markaðinum, en nýjasta vara Meniga er dæmi um það en hún hjálpar notendum heimbanka að mæla kolefnisspor sitt.


Lilja B. Einasdóttir, bankastjóri Landsbankans, lagði áherslu á það að fyrirtæki sem setja sér skýr markmið þegar kemur að sjálfbærni verði þau fyrirtæki sem munu ná langtíma árangri, önnur verði útundan. Stefanía G Halldórsdóttir frá Eyrir Venture Management tók undir þetta og sagði að nú væri tíminn fyrir fjárfestingarsjóði til að byggja upp eignasöfn sem fjárfesta í sjálfbærum fyrirtækjum, þetta megi ekki liggja bara á yfirborðinu. Jón L. Árnason framkvæmdarstjóri lífeyrissjóðins Lífsverks sem tók svo til orða að hans sjóðsfélagar séu ekki að leita eftir auka þúsund kalli í umslagði ef fórnarkostnaðurinn er að jörðin sé lögð í rúst. 



Við þurfum að hafa hugrekki til að ræða ræða þessi mál, sama hvar við erum á vegferðinni sagði Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka – við eigum að taka okkur hlutverk klappstýrunnar þegar kemur að sjálfbærninni. Við þurfum að sleppa tortryggni í samstarfi opinbera og einkageirans og hafa hugfast að við erum í þessu verkefni saman. Hrund Rudolfsdóttir forstjóri Veritas lagði til að í baráttu við Covid höfum við ekki bara áttað okkur á hvað við erum viðkvæm, við höfum einnig áttað okkur á hvað við getum verið sterk og fljót til að breyta þeim hlutum sem við viljum. En við þurfum að vinna meðvitað að því að halda í þær jákvæðu breytingar sem við höfum náð fram í gegnum faraldurinn, annars munum við falla í sama farið, sagði Hjálmar Gíslason forstjóri Grid og lagði þá einnig áherslu á við virkjum það alþjóðlega samstarf og þá vísindalegu nálgun sem hefur gagnast okkur í baráttunni við Covid, í baráttuna við loftslagsvánna.


 Panelumræður þar sem leiðtogar úr íslensku atvinnulífu ræða hið Nýja upphaf

„Forstjórar ættu að þekkja kolefnisspor fyrirtækja sinna jafnvel og þau þekkja EBITA “



 Georg Lúðvíksson forstjóri Meniga, Rakel Eva Sævarsdóttir verkefnastjóri Deloitte,   Aðildi Festu 2021 og Hrund Rudolfsdóttir forstjóri Veritas

„Nýsköpun á að vera stöðugt markmið fyrirtækja, má ekki draga úr henni þótt afkoma dragist saman tímabundið“



Á ráðstefnunni var þeim tímamótum fagnað að nú eru liðin 10 ár frá stofnun Festu. Tómas N. Möller og Hrund Gunnsteinsdóttir fóru yfir síðustu 10 ár og rýndu fram til næstu 10 ára í sínum erindum.


„Þegar Festa var stofnuð var megin verkefnið að sannfæra fyrirtæki og fjárfesta um virði samfélagsábyrgðar og sjálfbærni í rekstri og almennt að fræða atvinnulífið og almenning um hvað þessi hugtök fela í sér. Að útskýra að samfélagsábyrgð fjallaði ekki bara um að láta gott af sér leiða í gegnum góðgerðarstarf og styrki. Að samfélagsábyrgð og sjálfbærni fjallaði ekki um það hvernig fyrirtæki eyða peningum, heldur hvernig þau skapa verðmæti, ekki bara fyrir hluthafa heldur líka starfsfólk, frá framleiðslu vöru til sölu, nærsamfélag og náttúru. Skilningur á þessu hefur gjörbreyst,“ segir Hrund sem segir fólk almennt meta það svo að mest hafi breytingin verið á síðastliðnum fimm árum eða svo.


Tómas nefndi til þrjú atriði sem huga þarf að í Nýja upphafi. Sjálfbærni þarf í fyrsta lagi að vera lykilbreyta í rekstri fyrirtækja, þar sem litið er með skipulegum hætti til umhverfis, samfélags og efnahags. Í öðru lagi verðum við að taka aukið tillit til svonefndra ytri áhrifa við verðlagningu á vöru og þjónustu. Þar er átt við ýmsa þætti framleiðslu sem koma nú ekki með beinum hætti fram sem kostnaður í söluverði. Sem dæmi má nefna raunkostnað við loftmengun eða losun úrgangs. Og í þriðja lagi þá getum við gert enn betur í að beina fjárfestingum að fjárfestingarkostum sem standast kröfur um sjálfbærni.



Fyrir ráðstefnuna var leitað til allra formanna, varaformanna og framkvæmdastjóra Festu til dagsins í dag og fulltrúa þeirra sex fyrirtækja sem stofnuðu Festu árið 2011. Þau fengu öll spurninguna: Ef þú ættir að gefa drauma-sjálfbæra-samfélaginu 10 í einkunn, hvaða einkunn fær Ísland í dag og hvað þarf að gerast á næstu 10 árum til að það fái 10 í einkunn?

Niðurstaðan var sú, að í samanburði við lönd sem við gjarnan berum okkur saman við, fær Ísland 5,5 í einkunn. Við rétt náum.



Á ráðstefnunni var einnig sagt frá því hvernig fjórum íslenskum fyrirtækjum gekk að ná markmiðum um hringrásarkerfið á síðastliðnum tólf mánuðum. Þetta eru fyrirtækin Orka náttúrunnar, Pure North Recycling, Klappir og Össur sem öll settu sér markmið á Janúarráðstefnu Festu árið 2020.


Í frásögn þessara fyrirtækja má heyra hvernig Covid breytti öllu. Heimsfaraldurinn hafi haft áhrif á öll samskipti við umheiminn, hvort heldur sem er í útrás, samningaviðræðum við erlenda hringrásar samstarfsaðila og fleira.



„En þrátt fyrir að í Covid hafi falist miklar áskoranir þá lágu þar líka tækifæri og upplifðu fyrirtækin aukna áherslu á sjálfbærni og hringrásarhagkerfið meðal samstarfsaðila sinna. Til að mynda þá fór öll framleiðsla Pure North Recycling á endurunnu plasti fram úr áætlunum, Orka náttúrunnar tók veigamikil skref þegar kemur að nýsköpun á sviði kolefnisförgunar, Össur tók í notkun hönnunar verkferla sem draga verulega úr kolefnisspori framleiðslu fyrirtækisins og setti á fót umbúðargagnabanka, Klappir héldu áfram að þróa leiðir til að mæla betur þróun í átt að hringrásarhagkerfi, t.d. með upplýsingabrú milli fyrirtækja og úrgangsvinnsluaðila,“ segir Hrund. (tekið úr viðtali við Hrund sem birtist á Vísi 27.janúar.)


Aðildi er nýtt fellowship prógram sem Festa kynnti á síðasta ári og á ráðstefnunni var hulunni svipt af þeim 10 umsækjendum sem verða Aðildi 2021. Sjá nánar hér.


 Rakel Eva Sævarsdóttir verkefnastjóri Deloitte

Á ráðstefnunni kynntum við niðurstöður könnunarinnar Íslenskir stjórnendur á Grænni vegferð, sem Deloitte framkvæmdi í nóvember síðastliðnum en þar var leitað til stjórnenda 300 stærstu fyrirtækja landsins. Markmið könnunarinnar var að meta stöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart aðgerðum í loftslagsmálum og auka skilning á viðbrögðum stjórnenda til að sporna við loftslagsbreytingum.



Rakel Sævarsdóttir kynnti niðurstöðurnar og telur hún að þær gefi góða vísbendingu um stöðuna í dag. Í erindi hennar tók hún fyrir helstu niðurstöður þar sem meðal annars kemur fram að tveir þriðju stjórnenda svöruðu að þeir hefðu sett sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og nefnir hún það einmitt sem mjög jákvæðan punkt í lok erindisins. Aftur á móti lýsir hún því að aðeins helmingur stjórnenda hafa sett mælanleg markmið í loftslagsmálum sem, að mati Rakelar, ætti að vera hærra en mælanleg markmið er mikilvægt tæki í fyrirtækjarekstri við mat á árangri. Áhugavert var að af þeim stjórnendum sem hafa sett mælanleg markmið var ekkert þeirra með fjárhagslega umbun framkvæmdastjórnar tengda árangri í verkefnum tengdum loftslagsmálum.



Deloitte ætlar sér að taka púlsinn á aðgerðum fyrirtækja aftur að ári og nefnir Rakel í lokun þrjú atriði sem þau vonast til að sjá breytt á þeim tíma liðnum:


Í fyrsta lagi að fleiri fyrirtæki setji sér mælanleg markmið í loftslagsmálum. Í öðru lagi að fjárfestar sýni aukið frumkvæði og geri kröfur til stjórnenda um aðgerðir í mælanlegum markmiðum, en í ljós kom að þegar stjórnendur voru spurðir að því hvaða þættir hefðu mest áhrif á að fyrirtæki bregðist við loftslagsbreytingum höfðu fjárfestar minnst áhrif en orðspor fyrirtækisins mest. Í þriðja lagi nefnir Rakel að þau vonist til að sjá þróun í þá átt að sjálfbærni verði hluti af viðskiptamódeli fleiri fyrirtækja en viðskiptamódelið endurspeglar hvernig fyrirtæka búa til og viðhalda virði gegnum framboð þess á vörum og þjónustu. Aðeins þriðjungur stjórnenda svöruðu að sjálfbærni væri hluti af viðskiptamódeli fyrirtækja.


“Mig langar að nefna einn mjög jákvæðan punkt hér í lokin að niðurstöður sýndu að hátt í 100% stjórnenda telja sig skilja með hvaða hætti fyrirtækin þeirra hefur áhrif á loftslagsbreytingar.”




Elísabet H. Brynjarsdóttir verkefnastýra hjá Frú Ragnheiði lokaði svo fyrir okkur frábærum morgni með hugvekju um náungakærleikann og sjálfbæra velferð. Gefum Elísabetu orðið:


“Við höfum öll okkar eigin kjarna sem enginn annar getur skilgreint fyrir okkur.


Kjarnar okkar flækjast svo oft eftir því hvað gerist í lífinu eða þeim aðstæðum sem lífið býður því miður upp á – fátækt, mismunun, stéttaskipting, misskipting auðs eða að verða fyrir fordómum. Áföll eða mótvindur. Fer eftir því hvernig hver og einn einstaklingur horfir á það og skilgreinir fyrir sjálfan sig. En eitt af því sem ég hef lært, af öllum lærdóm mínum síðustu ár, er að ég get ekki ákvarðað kjarna hvers og eins fyrir manneskjuna. Ég get ekki verið í þínum sporum. Við erum öll manneskjur en líka einstaklingar sem verða að fá svigrúm til að finna mitt sjálfstæði, á mínum forsendum.



En þar flækjast stundum málin. Staða einstaklings í samfélaginu flækir málin. Landið sem þú fæddist í flækja málin. Þetta er aldrei svart hvítt, alveg eins og raunveruleiki hvers og eins er ekki svart hvítur. En stundum, þó við séum öll með okkar kjarna og okkur ber frumskylda að hlúa að honum til að halda áfram í lífinu og á móti öllu sem það býður okkur upp á, verðum við að að hafa hugfast að kjarninn okkar tilheyrir stærra samfélagi með mörgum ólíkum kjörnum. Samfélagi sem stendur frammi fyrir loftslagsvá, auknum ójöfnuði, aukinni tæknivæðingu og áskorunum sem fylgja því, heimilisleysi og flóknar þjónustuþarfir allra sem þurfa stuðning. Og velferð allra.”


Hlökkum til að taka á móti ykkur á Janúarráðstefnu Festu 2022


 Stjórn og starfsfólk Festu, frá hægri: Hrund Gunnsteinsdóttir, Aðalheiður   Snæbjarnardóttir, Gunnar Sveinn Magnússon, Sæmundur Sæmundsson, Gestur   Pétusson, Ingibjörg Ólafsdóttir, Harpa Júlíusdóttir - fyrir framan, Hrefna Briem, Tómas N. Möller og Erla Tryggvadóttir

„Stefnumótun fyrir sjálfbært samfélag er langhlaup, kallar á góða langtímasýn, hugrekki og þolinmæð“



  • Myndir af panelumræðum og stjórn Festu: Valgarður Gíslason
  • Ráðstefnan var tekin upp á Vox Club
  • Framleiðslufyrirtækið Sahara sá um allar upptökur og útsendingu
  • Þýðandi erlendra erinda var Nanna Gunnarsdóttir


Theodóra Listalín Þrastardóttir aðstoðaði Festu við miðlun og graffík tengdri ráðstefnunni.

 Theodóra Listalín Þrastardóttir

Share by: