29. mars 2023
Aðalbjörg Egilsdóttir
Við vitum öll hversu mikið liggur á að taka á loftslagsvánni og ekki síður hér heima en úti í heimi. Hér eru fyrirtæki auðvitað ekki undanskilin eins og Festusamfélagið veit vel, og það gildir um fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum. Oft á tíðum virðist þó stór hluti fyrirtækja gleymast í þessari umræðu, litlu og meðalstóru fyrirtækin. Þessi fyrirtæki eru um 90% af fyrirtækjum heimsins og bera ábyrgð á mikilli losun gróðurhúsalofttegunda, jafnvel þó að hvert og eitt þeirra beri kannski örlitla ábyrgð samanborið við risana innanlands eða utan.
Þessi fyrirtæki eru með frekar fátt starfsfólk, og hafa í fæstum tilvikum bolmagn eða fjármagn til að ráða inn sérfræðinga í umhverfis- eða sjálfbærnimálum eins og mörg stærri fyrirtæki hafa gert á síðustu árum og áratugum. Í þokkabót hafa stjórnendur fyrirtækjanna oftast ekki tíma til að sökkva sér í þessi mál, en í mörgum tilfellum sinna þeir starfi framkvæmdastjóra, innkaupastjóra, verslunarstjóra og mannauðsstjóra, allt í einu. Þetta gerir það að verkum að umhverfis- og sjálfbærnimálin standa oftast á hakanum, nema að einhver innan fyrirtækisins hafi sérstakan áhuga á þeim málum og taki þau á herðar sér, ofan á almenn störf.
Þegar þessi útvalda manneskja innan fyrirtækisins, sem hefur áhuga á umhverfis- og sjálfbærnimálum, hefur leitina að því sem fyrirtækið getur gert betur, lendir hún í líklega djúpri holu reglugerða, staðla, reikningsskila og annars, sem allflest er ekki hugsað fyrir litla eða meðalstóra fyrirtækið sem hún starfar hjá, heldur fyrir miklu stærri fyrirtæki. UFS, NFRD, verkefnakista um heimsmarkmiðin fyrir fyrirtæki, staðlar um kolefnisjöfnun og fleira er nefnilega ekki útfært þannig að það sé aðgengilegt fyrir minni fyrirtæki, sérstaklega ekki ef þau vilja taka sjálfbærnimálunum með festu og fara almennilega eftir því sem er krafist. Bæði er oft upplýsinga krafist sem þau geta einfaldlega ekki aflað eða kostnaðurinn er svo hár að fyrirtækið ræður ekki við hann. Í mörgum tilvikum er torskilið sérfræðimál notað í stöðlum eða leiðbeiningum svo það er ekki nema fyrir fagfólk að skilja. Margir gefast, skiljanlega, upp.
Vegna alls þessa eiga lítil og meðalstór fyrirtæki oft erfitt með að sinna umhverfis- og sjálfbærnimálum á ábyrgan hátt og skila upplýsingum um sína vegferð skýrt til neytenda og annarra hagaðila. Við erum þá að tala um að 90% fyrirtækja, sem mörg hver vilja leggja sitt af mörkum, er í raun haldið frá sjálfbærnikeppninni sem við erum öll í því staðlarnir og leiðbeiningarnar eru ekki aðlagaðar að þeim. Ferlið er of flókið og of kostnaðarsamt og endapunkturinn er sá að við náum miklu minni framförum en við gætum annars náð.
Sem betur fer er þetta þó að breytast. Ný reglugerð um sjálfbærniupplýsingar, CSRD (Corporate Sustainability Reporting Directive), sem mun leysa NFRD (Non-Financial Reporting Directive) af hólmi í sjálfbærniupplýsingagjöf frá og með 2024, hefur verið aðlöguð að einhverju leyti að litlum og meðalstórum fyrirtækjum, og mun vera skylda fyrir öll skráð fyrirtæki, líka lítil og meðalstór, að uppfylla þær kröfur. Við verðum þó að hefja undirbúninginn strax ef við viljum tryggja að íslensk fyrirtæki, af öllum stærðum og gerðum, geti uppfyllt þær kröfur sem þar koma fram. Lítil og meðalstór fyrirtæki verða að hefja undirbúning fyrir breyttan leikvöll sem fyrst til að heltast ekki úr lestinni. Þau geta ekki gert það hvert í sínu horni heldur verða að vinna saman og leita eftir viðeigandi aðstoð.
Þetta verður flókið og erfitt, það er ekki spurning, en með samvinnu getum við gert þetta aðeins auðveldara. Það sem skiptir mestu máli er að við höldum alltaf áfram að reyna að bæta okkur, fáum fleiri með okkur í sjálfbærnivegferðina og missum ekki móðinn. Í dag eru ýmsar lausnir í boði, og við hjá Laufinu hlökkum til að að vera hluti af því að byggja upp sjálfbært atvinnulíf þar sem enginn er skilinn eftir. Það er ýmislegt undir, og alls ekki tími til að gefast upp. Hefjum vegferðina, höldum galvösk áfram og gerum heiminn að betri stað.
Höfundur, Aðalbjörg Egilsdóttir, er yfir fræðslumálum Laufsins sem er aðildarfélag Festu
Menntavegur 1
101 Reykjavík
festa@sjalfbaer.is