Festa fékk þær Birtu Kristínu Helgadóttur, sviðsstjóra Orku hjá EFLU og Tinnu Hallgrímsdóttur, sérfræðing í loftslagsáhættu og sjálfbærni hjá Seðlabanka Íslands til þess að skrifa sitthvora samantektina eftir COP29 í Baku, Aserbaísjan.

2.12.24

Samantekt eftir COP frá Tinnu Hallgrímsdóttur


Þrefað um loftslagsfjármögnun á COP29

Heimsbyggðin stendur frammi fyrir fordæmalausri fjárfestingarþörf og -tækifærum hvað varðar aðgerðir í loftslagsmálum, líkt og kemur fram í skýrslu Nicholas Stern o.fl. háttsettra hagfræðinga sem kom út fyrir COP29. Til að ná markmiðum Parísarsáttmálans er brýn þörf á að fjármagna aðgerðir í fimm meginflokkum (sjá niðurbrot á Mynd 1): 

  • Orkuskipti 
  • Endurheimt og verndun vistkerfa og sjálfbær landbúnaður 
  • Aðlögun og aukinn viðnámsþróttur gegn loftslagsbreytingum 
  • Töp og tjón sem lönd verða fyrir vegna loftslagsbreytinga 
  • Réttlát umskipti yfir í lágkolefnishagkerfi 

Fjárfestingarþörfin nemur a.m.k. 7 billjónum (7 milljón milljónum) bandaríkjadala árlega fram að 2035, þar af a.m.k. 2,6 til þróaðra ríkja, 1,3 til Kína og 3,1 til nýmarkaðs- og þróunarríkja að Kína undanskildu (Mynd 1). 

Þörf er á hraðri aukningu fjárfestingar í öllum löndum, en staðan er brýnust í nýmarkaðs- og þróunarríkjum að Kína undanskildu. Í þeim ríkjum er þörfin mest á auknum fjárfestingum í orkuskiptum, þau eru viðkvæmust fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga og búa yfir yfirgnæfandi meirihluta náttúruauðlinda og líffræðilegs fjölbreytileika jarðar. 


Ef ekki næst að fjármagna loftslagsaðagerðir í nýmarkaðs- og þróunarríkjum eygir mannkyn enga von um að ná markmiðum Parísarsáttmálans, enda kemur fram í 9. grein sáttmálans að þróuð ríki skuli veita fjármagn til þróunarlanda til mótvægisaðgerða og aðlögunar.   


Í ljósi þessa samþykktu aðildarríki sáttmálans, samhliða Parísarsáttmálanum á COP21, að koma á nýju loftslagsfjármögnunarmarkmiði fyrir 2025, sem átti að koma í stað fyrra markmiðs um 100 ma. dali á ári. 


Fyrra markmið um 100 ma. dali á ári var pólitískt ákvarðað og byggði ekki á þarfagreiningu. Því var ákveðið að nýja markmiðið ætti að taka tillit til þarfa og forgangsröðunar þróunarlanda. 


Það var því á nýafstöðnu aðildarríkjaþingi, nánar tiltekið COP29 sem haldið var í Bakú í Aserbaísjan í nóvember 2024, sem samþykkja átti nýtt sameiginlegt markmið um fjármögnun loftslagsaðgerða (e. New Collective Quantified Goal on Climate Finance), sem tæki við af fyrra markmiði frá og með 2025. 

 

Líkt og kom fram að ofan er fjárfestingarþörf til loftslagsaðgerða í nýmarkaðs- og þróunarríkjum að Kína undanskildu a.m.k. 3,2 billjónir dala árlega fyrir 2035. Innlent fjármagn getur staðið undir hluta af þessari þörf en a.m.k. 1,3 billjónir dala árlega   þurfa að koma gegnum ytra fjármagn fyrir 2035. 


Það var því samningsaðilum ljóst að til að ná raunverulegum árangri í viðræðum um nýja loftslagsfjármögnunarmarkmiðið þyrfti að fara úr milljörðum dala upp í billjónir dala. 


Lokaniðurstaðan var því þróunarríkjum mikil vonbrigði, en samþykkt var að þróuð lönd yrðu í forystu um að veita árlega 300 milljörðum bandaríkjadala til þróunarríkja til loftslagsaðgerða fyrir 2035. 


Sömuleiðis var samþykkt ákall um samvinnu aðildarríkja um að skala upp loftslagsfjármagn til þróunarríkja svo það nái 1,3 billjónum dala árlega fyrir 2035 frá opinberu og einkafjármagni (Mynd 2 [7. gr]). 


En það var ekki einungis fjárhæðin sem varð að deilumáli. Einnig var þrefað um hvaða ríki skyldu veita fjármagn sem félli undir markmiðið, hvers kyns fjármagn um yrði að ræða og hver tímaramminn yrði.


Í eldra markmiði um 100 ma. dali árlega var útlistað hvaða lönd skyldu veita fjármagn sem fellur undir markmiðið. Þar var miðað við skiptingu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1992 sem skilgreindi þau ríki sem voru aðildarríki OECD á þeim tíma sem þróuð (og eru þau útlistuð í viðauka II). Margt hefur breyst frá 1992 og hafa þróuð ríki talað fyrir því að tiltölulega rík nýmarkaðsríki líkt og Kína og Sameinuðu arabísku furstadæmin skuli einnig veita fjármagn sem fellur undir markmiðið þar sem losun þeirra hefur aukist töluvert frá 1992 og mörg þeirra eru orðin ríkari. Þessu mótmæla þróunarríkin sem halda því fram að þróuð lönd séu að reyna að skorast undan ábyrgð. Á meðan á ráðstefnunni stóð komu því fram í textadrögum ýmsar útgáfur af því hvernig ákvarða skyldi hvaða ríki ættu að veita

fjármagn, til dæmis að skipta löndum upp eftir losun (sögulegri og/eða núverandi) og vergri landsframleiðslu. Lokaniðurstaðan var að hrófla ekki við þeirri skiptingu sem stillt var upp í Loftslagssamningnum árið 1992, en opna þó á þann möguleika að ríki sem ekki væru skilgreind sem þróuð gætu einnig veitt fjármagn sem félli undir markmiðið án þess að missa stöðu sína sem þiggjandi fjármagns (Mynd 3 [9. og 10. gr]). Þróuð ríki eiga þó að vera í forystu um að veita loftslagsfjármagn sem tengist 300 ma. dala markmiðinu (Mynd 3 [8. gr]).

Gerð fjármagns skipti líka höfuðmáli í samningsviðræðunum. Meirihluti loftslagsfjármagns er í formi lána, þar með talið stór hluti í lánum án ívilnana. Það kemur sér illa fyrir þróunarlönd sem eru mörg hver afar skuldsett, en skuldsetning lágtekjuríkja hefur aukist verulega á seinasta áratug. Þau hafa því kallað eftir því að fjármagn sé í formi styrkja eða lána með ívilnunum (þ.e.a.s. lána með lægri vöxtum og meiri sveigjanleika). Sum þróunarríki töluðu fyrir því að fjármagn yrði framtalið í styrkja-ígildum, þ.e.a.s. að lán myndu telja minna en ella. Þróuð ríki hafa hinsvegar talað fyrir því að stækka mengi gerðar þess fjármagns sem tengist markmiðinu, og vilja að þar undir falli bæði innlent og erlent fjármagn, opinbert og einkafjármagn og fjárfestingar. 

Niðurstaðan var sú að hvika ekki frá skilgreiningu eldra markmiðsins þar sem fjármagn úr margvíslegum áttum fellur undir markmiðið, þar með talið frá opinberu- og einkafjármagni, tvíhliða og alþjóðlegu fjármagni og frá þróunarbönkum (Mynd 3 [8. gr. (a) og (c)]). Kröfur þróunarríkja um að takmörk yrðu sett á lán án ívilnana eða að ákveðinn hluti yrði í formi styrkja rötuðu ekki í textann. 


Tímarammi markmiðsins skiptir einnig höfuðmáli. Þróunarríki töluðu mörg hver fyrir því að markmiðið tæki gildi frá 2025 eða 2026, þ.e.a.s. að markmiðinu þyrfti að ná strax á næsta eða þarnæsta ári og það myndi gilda til 2030 eða 2035. Þar spilar vafalaust inn vantraust sem mörg þróunarríki bera til þróaðra landa, þar sem eldra markmiði um 100 ma. dali árlega var ekki náð fyrr en tveimur árum á eftir áætlun, og það án skaðabóta. Niðurstaðan var hins vegar sú að markmiðinu þyrfti að ná fyrir 2035, þ.e.a.s. að skala ætti upp fjármagn árlega þar til fjárhæðinni yrði náð í seinasta lagi árið 2035. 


Mörg sneru því vonsvikin til baka til sinna heimalanda frá þessu 29. aðildarríkjaþingi Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Ljóst er að betur má ef duga skal. Þrjú hundruð milljarðar  bandaríkjadala árlega komast ekki nálægt því að uppfylla ytri fjárfestingarþörf loftslagsaðgerða í þróunarlöndum og óljóst er hvort ákallið um 1,3 billjónir dala heildarframlag úr hinum ýmsu áttum muni kalla fram það gríðarlega stökk í flæði einkafjármagns sem þörf er á. Raunin er sú að sama hvernig við skiptum upp heimsbyggðinni sitjum við öll í sömu súpunni þegar kemur að þeirri hnattrænu ógn sem loftslagsbreytingar boða. Vanfjármögnun loftslagsaðgerða í nýmarkaðs- og þróunarríkjum felur ekki einungis í sér staðbundin áhrif heldur verður þeirra vart víða um heim, m.a. vegna rofs og breytinga á aðfangakeðjum af völdum loftslagsbreytinga og fjölgun loftslagsflóttafólks. Líkt og António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, orðaði það í opnunarávarpi sínu á COP29, „Heimsbyggðin verður að borga gjaldið; annars mun mannkynið gjalda þess. Fjármögnun loftslagsaðgerða er ekki góðgerðarstarfsemi heldur fjárfesting“. 


Share by: