Loftslagsleiðtogar
Festa hélt áfram metnaðarfullu starfi í loftslagsmálum. Helst ber þar að nefna verkefnið Loftslagsleiðtogar atvinnulífsins. Verkefnið felur í sér að leiða saman forstjóra frá aðildarfélögum Festu til að bæði vinna að metnaðarfullum loftslagsmarkmiðum og hvetja stjórnvöld og önnur fyrirtæki til aðgerða. Á árinu 2024 var unnið að því að stækka hóp loftslagsleiðtoganna og skerpa á markmiðum þeirra. Í byrjun desember hittust loftslagsleiðtogarnir, nokkrir forstjórar stærstu fyrirtækja landsins, á fundi til að leggja drög að næstu skrefum í loftslagsstarfinu. Einnig var unnið að því að víkka fókusinn í verkefninu, meðal annars með því að horfa meira til óbeinnar losunar úr aðfangakeðjum (e. Scope 3) og efnisnotkunnar, enda hefur sá þáttur mikil áhrif á kolefnisspor fyrirtækja.
Umsögn um loftslagsáætlun stjórnvalda
Festa lét sig einnig varða stefnumótun stjórnvalda. Í júní skilaði félagið inn formlegri umsögn um uppfærða aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Í umsögninni lýsir Festa ánægju með aukið samráð við atvinnulífið en bendir jafnframt á mikilvægi þess að útfæra sumar aðgerðir betur og tryggja hagkvæmni þeirra. Einnig er lögð áhersla á stöðugt samtal milli stjórnvalda og atvinnulífs til að ná árangri, enda verði loftslagsmarkmiðum aðeins náð með sameiginlegu markvissu átaki. Umsögnin er gott dæmi um hvernig Festa getur gengt hlutverki málsvara aðildarfélaga sinna gagnvart stjórnvöldum, með sjálfbærni að leiðarljósi.