Umhverfi

Loftslagsverkefni

Loftslagsleiðtogar  

 

Festa hélt áfram metnaðarfullu starfi í loftslagsmálum. Helst ber þar að nefna verkefnið  Loftslagsleiðtogar atvinnulífsins. Verkefnið felur í sér að leiða saman forstjóra frá aðildarfélögum Festu til að bæði vinna að metnaðarfullum loftslagsmarkmiðum og hvetja stjórnvöld og önnur fyrirtæki til aðgerða. Á árinu 2024 var unnið að því að stækka hóp loftslagsleiðtoganna og skerpa á markmiðum þeirra. Í byrjun desember hittust loftslagsleiðtogarnir, nokkrir  forstjórar stærstu fyrirtækja landsins, á fundi til að leggja drög að næstu skrefum í loftslagsstarfinu. Einnig var unnið að því að víkka fókusinn í verkefninu, meðal annars með því að horfa meira til óbeinnar losunar úr aðfangakeðjum (e. Scope 3) og efnisnotkunnar, enda hefur sá þáttur mikil áhrif á kolefnisspor fyrirtækja. 





Umsögn um loftslagsáætlun stjórnvalda 



Festa lét sig einnig varða stefnumótun stjórnvalda. Í júní skilaði félagið inn formlegri umsögn um uppfærða aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Í umsögninni lýsir Festa ánægju með aukið samráð við atvinnulífið en bendir jafnframt á mikilvægi þess að útfæra sumar aðgerðir betur og tryggja hagkvæmni þeirra. Einnig er lögð áhersla á stöðugt samtal milli stjórnvalda og atvinnulífs til að ná árangri, enda verði loftslagsmarkmiðum aðeins náð með sameiginlegu markvissu átaki. Umsögnin er gott dæmi um hvernig Festa getur gengt hlutverki málsvara aðildarfélaga sinna gagnvart stjórnvöldum, með sjálfbærni að leiðarljósi. 

Deiglufundur um vísindalega ákvörðuð loftslagsmarkmið (SBTi) 



Festa hélt rafrænan deiglufund 25. september um Science Based Targets (SBTi), eða vísindalega ákvörðuð loftslagsmarkmið. Þar kom fram að um tíu íslensk fyrirtæki eru komin með formlega samþykkt markmið frá SBTi eða eru í umsóknarferli. Fundurinn vakti mikinn áhuga og var mæting afburðagóð sem endurspeglar vaxandi áhuga á vísindatengdum loftslagsmarkmiðum. Sérfræðingurinn Adam Roy Gordon, sem sat í upphafsstjórn SBTi, miðlaði af reynslu sinni á fundinum. Einnig deildu fulltrúar þriggja íslenskra fyrirtækja (Advania, Embla Medical og Deloitte) sinni reynslu af SBTi ferlinu, auk þess sem Landsvirkjun kynnti þátttöku sína í CDP loftslagsupplýsingakerfinu. Deiglufundir sem þessir efla færni aðildarfélaga í að móta og fylgja eftir vönduðum loftslagsmarkmiðum. 



Hringrásarhagkerfið  


World Circular Economy Forum (WCEF 2024) 

  

Hringrásarhagkerfið var á dagskrá í starfsemi Festu líkt og síðustu ár. Fulltrúar Festu sóttu World Circular Economy Forum (WCEF 2024) sem fram fór í Brussel dagana 15.–16. apríl 2024. Þar gafst tækifæri til að kynna sér nýjustu lausnir og strauma í hringrásarmálum og tengjast leiðandi aðilum á sviðinu. Þar tók þá Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, þátt í panelumræðum í norrænum viðburði á vegum Nordic Innovation. 

Deiglufundur um hringrás í rekstri 



Festa hélt í mars rafrænan Deiglufund fyrir aðildarfélög um nýjustu strauma í hringrásarhagkerfinu, byggðan á niðurstöðum World Circular Economy Forum í Brussel. Alþjóðlegir sérfræðingar: Vojtech Vosecky (Circle Economy), Catherine Chevauché (Veolia), Tim Forslund (Sitra) og Elin Bergman (Cradlenet) – kynntu ný verkfæri, ISO 59000 staðalinn og Sitra Playbook leiðarvísi fyrir innleiðingu hringrásar í rekstri. Anna de Matos frá Circular Library Networks gerði þá grein fyrir þróuninni á Íslandi. 




Viðburður í EFTA húsinu í Brussel um plastmengun í hafi  



Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, sótti viðburð á vegum Sendiráðs Íslands í Brussel um plastmengun í hafi. Festa var þar sem fulltrúi atvinnulífsins. Erindi voru m.a. frá ráðherrum frá belgísku ríkisstjórninni, vísindafólki og fulltrúum frá alþjóðastofnunum. Katrín Jakobsdóttir, þáverandi forsætisráðherra lokaði fundinum með erindi um nýjan plastsáttmála. 

Nordic Circular Summit 



Stærsta hringrásarráðstefna á Norðurlöndunum var haldin í Helsinki dagana 18.-19. nóvember. Þemað í ár var fyrirtækjarekstur í hringrásarhagkerfinu og framsækið frumkvöðlastarf í því samhengi. Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastýra Festu var einn af aðalfyrirlesurum á ráðstefnunni. „Fólk á Norðurlöndum lifir í umhverfi þar sem við höfum oft þurft að hugsa hluti upp á nýtt, aðlagast, nýta hverja einustu afurð til fulls og vinna með það sem við höfum. Það gefur okkur kjörið hugarfar fyrir nýsköpun." Tvö íslensk nýsköpunar fyrirtæki voru í efstu sætum í ‘pitch’ keppni ráðstefnunnar. Melta var í fyrsta sæti og SideWind var í öðru sæti, að mati áhorfenda. Þar að auki hlaut Íslenski sjávarklasinn viðurkenningu fyrir verkefnið 100% rækjur.  


 

Nordic Jury Group 



Í mars 2024 tók Festa þátt í Nordic Jury Group hjá Nordic Innovation og Accenture, þegar Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastýra Festu, sat í dómnefnd sem valdi bestu norrænu samstarfsverkefnin fyrir Nordic Circular Accelerator‑hraðalinn. Verkefnið miðar að því að sýna fram á hvernig gagnaskipti geta flýtt fyrir umbreytingu í hringrásarhagkerfi.

Til baka
Share by: