06.05.23

Hringrás - verkfærið sem við þurfum?

Við sóttum stærstu hringrásarráðstefnu í heimi sem haldin var í Helsinki í síðustu viku, World Circular Economy Forum WCEF (WCEF2023) og stóðum þar að einum hliðarviðburð í samstarfi við Nordic Circular Hotspot. Hringrásarhagkerfið er eitt af mikilvægustu verkefnum Festu og hefur verið á dagskrá félagsins frá árinu 2019. 


Við lítum á viðfangsefni Festu út frá þremur stoðum sjálfbærni: fólk, jörð og hagsæld og hér kemur samantekt af ráðstefnunni út frá því.


Jörð

  • Kjarninn er þessi: Við munum ekki ná loftslagsmarkmiðum okkar nema færast yfir í hringrásarhagkerfi. Hringrásarhagkerfið er lausn á mörgum umhverfis- og efnahagsvandamálum sem við stöndum frammi fyrir í dag. 
  • Línulega hagkerfið er að þurrka upp auðlindir okkar og því er ekki aðeins nóg að bæta hringrás við viðskiptamódelið heldur þurfum við að skipta þeim línulegu út. 
  • Í dag er meira en 90% af tapi líffræðilegs fjölbreytileika vegna þess hvernig við nýtum náttúruauðlindir. Við þurfum að breyta því hvernig við framleiðum, notum og neytum afurða okkar og hringrásarhagkerfið er tól fyrir það.


Hagsæld

  • Það er ljóst að víða eru stjórnvöld, sveitarfélög, stór og lítil fyrirtæki farin að taka hringrásarhagkerfinu alvarlega. Við erum við hætt að tala um af hverju við þurfum hringrásarhagkerfi. Núna er þetta bara spurning hvernig við förum yfir í hringrás að fullum þunga.
  • Hringrás eykur skilvirkni og sparnað. Tækifærin eru vannýtt. Fyrirtæki eru því ekki aðeins að færast nær hringrás af umhverfisástæðum, heldur einnig vegna þess að mikilvæg hráefni eru að verða dýrari vegna skorts á þeim. Við erum enn á þeim stað að við tökum auðlindir jarðar, búum til vörur úr þeim sem eiga ekkert framhaldslíf að lokinni notkun. Í hringrásarhagkerfi hugum við ávalt að ferli vörunnar frá upphafi til enda og höldum vörum og auðlindum í hringrás. Þarna aftengjum (e. decouple) við hagvöxt og neyslu. Þessi viðskiptamódel, sem byggja á hringrás, eru til og þau virka, en nú er kominn tími til að fjárfesta enn frekar í þeim og þróa þau. Við vitum um dæmi þar sem breytt framleiðsla yfir í hringrás hjá fyrirtækjum fól í sér aukna hagkvæmni, þótt að upphaflega hafi hringrás ekki verið hið eiginlega markmið. 
  • Ný lög um upplýsingagjöf munu gera ítarlegri kröfur varðandi áhrif á náttúruna og hringrás næstu ár, en ljóst er að löggjafinn þarf að vinna hraðar. Þá þarf að halda þarf áfram að hleypa af stað fjármagni inn í hringrásarlausnir. 


Fólk

  • Hringrásarhagkerfið er til umræðu á heimsvísu. Á WCEF2023 voru komin saman ráðafólk, forstjórar, fræðafólk og sérfræðingar frá öllum heimshornum og hægt er að draga lærdóm frá hringrásarviðskiptamódelum sem hafa þróast til dæmis í ríkjum í Afríku. Á síðustu misserum hafa aðilar frá yfir 40 ríkjum í Afríku komið saman og myndað með sér samvinnu vettvang um hringrásarhagkerfið. Við þurfum að hugsa hnattrænt - en hvert og eitt ríki þarf sínar sérsniðnu hringrásarlausnir. 
  • Félagslegi þáttur hringrásar má ekki gleymast. Réttlát umskipti eru lykilorð hér. Þegar einstakir iðnaðir eru í umbreytingarferli þarf að leyfa röddum þeirra sem skapa verðmætin að heyrast og taka mark á þeim. Þetta var eitt af því sem var rætt í samhengi við landbúnað, til dæmis. „Ekkert um okkur, án okkar” er setning sem á við hér en það var einnig notað í samhengi við ungt fólk, sem átti kraftmikla innkomu á viðburði þar sem enn og aftur vorum við minnt á mikilvægi þess að lofa ungu fólki sæti að borðinu, í undirbúningi og ákvarðanatöku. #JustTransition
  • Við þurfum fleiri hringrásarsérfræðinga. Þekking á hringrás er gífurlega verðmæt í þróuninni sem er að eiga sér stað, í flestum geirum samfélagsins: hjá fyrirtækjum, stofnunum og á vettvangi stjórnmálanna. 
  • Ef þátttakendur á WCEF23 ættu að velja eitt orð sem einkennir ráðstefnuna og hringrásarhagkerfið í heild sinni, var það samvinna! Brjótum niður sílós, hugsum heildrænt og hnattrænt. Hringrás er leiðin að sjálfbærara samfélagi og leiðin að hringrás er samvinna.



Share by: