Festa fékk þær Birtu Kristínu Helgadóttur, sviðsstjóra Orku hjá EFLU og Tinnu Hallgrímsdóttur, sérfræðing í loftslagsáhættu og sjálfbærni hjá Seðlabanka Íslands hjá Seðlabanka Íslands til þess að skrifa sitthvora samantektina eftir COP29 í Baku, Aserbaísjan.



2.12.24

Samantekt eftir COP frá Birtu Kristínu Helgadóttur


Helstu atriði frá COP29 í Bakú
Á COP29 ráðstefnunni í Bakú komu saman alþjóðlegir leiðtogar, sérfræðingar og hagsmunaaðilar til að ræða áskoranir og tækifæri tengd loftslagsmálum. Áhersla á nýsköpun, fjármögnun, samstarf og jafnrétti lagði grunninn að því að saman næðum við alþjóðlegum markmiðum í orku- og loftslagsmálum.

Stór þemu og innsýn frá COP29


1. Flýting orkuskipta
Hrein orka og vetnishagkerfi var í brennidepli á ráðstefnunni þar sem fjölmargar þjóðir kynntu metnaðarfull áform sín um framleiðslu á vetni, samhliða þróun vindorku og öðrum endurnýjanlegum en sveiflukenndum orkugjöfum. Þörfin fyrir skýrleika og fyrirsjáanleika á eftirspurn eftir vetni var þó áréttuð sem grundvallaratriði til að auka umfang þessara áforma.


Endurnýjanlegir orkugjafar eins og vind- og sólarorka halda áfram að vera í forgrunni, en áskoranir tengdar þróun þeirra voru ræddar. Mikilvægi öflugra tenginga, sveigjanlegra orkukerfa og þróaðra geymslulausna, bæði langtíma og skammtíma, var sérstaklega undirstrikað til að tryggja áreiðanlega afhendingu hreinnar orku.

2. Fjármögnun loftslagsaðgerða
Orkunýtni var nefnd sem „low-hanging fruit“ með verulegum möguleikum á að ná fram skjótum áhrifum. Þátttakendur hvöttu til samræmingar á lands- og alþjóðlegum áætlunum til að yfirstíga fjármagnstengdar hindranir og lögðu áherslu á nauðsyn þess að búa til réttlát hvatakerfi til að laða að fjárfestingar og auðvelda skölun á lausnum sem skila raunverulegum árangri.


Hlutverk alþjóðlegra kolefnismarkaða var einnig rætt og lögð áhersla á þróun samhæfðra ramma og gagnsæra verðlagskerfa til að flýta fyrir loftslagsaðgerðum með opinberum og einkafjárfestingum.

3. Nýsköpun og tækni
Nýsköpun var í kastljósinu sem drifkraftur orkuskipta. Gervigreind og snjallnet voru nefnd sem lausnir sem geta minnkað losun um allt að 20%, sérstaklega með því að einfalda/styrkja leyfisveitingaferli fyrir græn orkuverkefni.
Framsæknar lausnir endurnýjanlegrar orku, fjárfestingar í innviðum og áhættudreifing á þessu sviði voru undirstrikuð sem lykilatriði til að auka umfang þessara tæknilausna.

4. Jafnrétti og samfélagslegur stuðningur
Á ráðstefnunni var lögð mikil áhersla á mikilvægi samfélagslegs stuðnings til að ná fram árangursríkum en jöfnum og sanngjörnum orkuskiptum. Stefnumótun og aðgerðir sem tryggja réttláta niðurstöðu og skila ávinningi til allra samfélagshópa var sett í forgang, með hvatningu til að sýna orkuskiptin í jákvæðu ljósi.
Jafnrétti kynjanna í orkugeiranum var einnig í kastljósinu, með verkefnum sem miða að því að styrkja konur með leiðsögn, fjárhagslegum stuðningi og tækifærum til forystu.

5. Samstarf og hagsmunaaðilar
Aukið samstarf milli hins opinbera og einkageirans var mikið til umræðu sem grunnur að kerfisbreytingum. Þá var einnig mikið rætt um að gott samstarf milli allra hagsmunaaðila á öllum sviðum, allt frá áhættuminnkun fyrir orkuinnviði til eflingar nýsköpunar, væri talið lykilatriði til að ná kolefnishlutleysi.


Alþjóðlegt samstarf á kolefnismörkuðum og svæðisbundin tenging orkuauðlinda voru einnig nefnd sem mikilvægar aðgerðir til að stuðla að hraðari og réttlátari framþróun.

Lokaorð
COP29 í Bakú sameinaði krafta sérfræðinga sem tilbúnir eru að setja fram metnaðarfullar aðgerðaaráætlanir, markvissar fjárfestingar og samvinnuverkefni sem eru ómissandi til að ná að skapa sjálfbæra framtíð. Með því að nýta nýsköpun, samræma hvata og efla samstarf getur alþjóðasamfélagið hraðað umskiptum yfir í öruggan og kolefnishlutlausan heim.


Ráðstefnan var áminning um að orkuskipti eru ekki aðeins tæknileg áskorun heldur einnig samfélagsleg—sem krefst sameiginlegs metnaðar, mikils fjármagns og raunverulegra aðgerða.



Hér má svo lesa samantekt Tinnu.


Share by: