23. janúar 2023

Lít­um inn á við til að ná ár­angri

Í vikunni blæs Festa – miðstöð um sjálfbærni til tíundu Janúarráðstefnu félagsins, og yfirskriftin í ár er Lítum inn á við.

Á Janúarráðstefnu Festu, sem er stærsti árlegi sjálfbærniviðburður á Íslandi, kynnum við það helsta sem er í brennidepli í heimi sjálfbærni. Í ár kynnumst við því hvernig íslenski verkfræðingurinn og frumkvöðullinn, Friðrik R. Jónsson, vinnur að lausnum gegn stærstu áskorunum samtímans, ráðherra nýsköpunar segir frá nýjum áherslum í átt að sjálfbærni, Dóra Jóhanns talar hugmyndir fram í dagsljósið og forseti Ungra umhverfissinna tekur púlsinn á íslensku atvinnulífi. Í stórum dráttum kynnum við strauma og stefnur á sviði nýsköpunar og hugvits annars vegar, og hins vegar þær lagabreytingar og auknar kröfur um sjálfbærniupplýsingagjöf til fyrirtækja af öllum stærðum sem eru í farvatninu á Íslandi. Markmiðið er að undirbúa íslenskt atvinnulíf sem allra best fyrir þær áskoranir og tækifæri sem liggja fyrir.



Þrjár linsur greina kjarnann frá hisminu
Boðið verður upp á þrjár umræðustofur í dagskránni. Þær eru hugsaðar sem kröftug kynning á hverju efni fyrir sig og gefandi og lærdómsríkt samtal á milli sérfræðinga og stjórnenda á öllum sviðum íslensks atvinnulífs. Umræðurnar eru leiddar af okkar fremsta á fólki á hverju sviði, sem hefur varið síðastliðnum mánuðum í að undirbúa efnið á vinnufundum með tugum manna úr samfélagi Festu og tengdum aðilum. Útkoman verður þekking á breiddina jafnt sem dýptina og við göngum út reynslunni og þekkingunni ríkari.

Umræðustofurnar eru þrjár og spurningin er, hver höfðar mest til þín?

Lög og reglur
Heiti og skammstafanir yfir ný lög geta verið yfirþyrmandi: EU Taxonomy, SFDR, CSRD og svo framvegis. Við ætlum að einfalda þetta.

Tilgangur laganna er að koma í veg fyrir grænþvott, efla sjálfbærar og ábyrgar fjárfestingar, auka gagnsæi og ýta undir að fjármagn styðji við þrjár stoðir sjálfbærni: umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti.

Í umræðustofunni rekjum við áhrif þessara breytinga á lítil, meðalstór og stór fyrirtæki og á degi ráðstefnunnar gefur Festa út yfirgripsmikinn og hnitmiðaðan vegvísi um þessar reglugerðir. Umræðustofan er leidd af Tómasi N. Möller, yfirlögfræðingi hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna og formanni Festu.

„Við ætlum að vera með fókusinn á evrópulöggjöf, og sú löggjöf á við okkur hér á landi vegna þess að hún verður hluti af EES samningnum. Við reynum að horfa á það hvernig löggjöfin tengir saman fyrirtæki í raunhagkerfinu: framleiðslu og þjónustufyrirtæki og fjármálafyrirtæki: fjárfesta, lífeyrissjóði, banka, tryggingarfélög, fjárfestingarsjóðir og annað. Þetta byggir allt á massívri áætlun evrópusambandsins frá 2018 og þessum svokallaða “Green deal” frá 2019.“ Tómas N Möller. Grænn samfélagssáttmáli ESB (e. Green deal) hefur það markmið að gera hagkerfi evrópusambandsins sjálfbært.

Með Tómasi verða Vilhjálmur Þór Svansson, yfirlögfræðingur Creditinfo hf., Kristbjörg M Kristinsdóttir, fjármálastjóri Stefnis hf. og stjórnarformaður IcelandSIF, Þorsteinn Kári Jónsson, forstöðumaður sjálfbærni og samfélagstengsla hjá Marel og Sigríður Ósk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri umhverfismála hjá Hornsteini.

Sjálfbærniupplýsingagjöf
Það eru ekki minni breytingar sem blasa við fyrirtækjum þegar kemur að því að miðla upplýsingum um sjálfbærni í rekstri. Hvaða upplýsingar þarf að birta og hvernig er best að birta þær svo þær uppfylli lög og reglur og skili sér til hagaðila?

Fyrirtæki af öllum stærðargráðum bera hag af því að huga að því hvernig þau miðla sjálfbærniupplýsingum til þess að tryggja sér góð viðskipti og samkeppnisstöðu og gæta þess að þau verði ekki uppvís af grænþvotti. Sjálfbærniupplýsingagjöfin er ekki markmið í sjálfu sér, heldur hugsuð sem samanburðarhæf og trúverðug frásögn um að rekstur sé í raun sjálfbær.

Aðalheiður Snæbjarnardóttir sjálfbærnistjóri Landsbanks og varaformaður Festu sem mun leiða umræðustofuna.

„Þessi umræðustofa er hugsuð sem eins einföld mynd og mögulega er hægt fyrir fyrirtæki sem standa frammi fyrir því að vilja miðla sjálfbærniupplýsingum en vita ekki hvar þau eiga að byrja, eða hvað þau eiga yfir höfuð að gera og við vitum náttúrulega alveg öll hvernig þessi skammstöfunarsúpuheimur lítur út, endalaust mikið af viðmiðum – hvað á að gera, hver á að gera hvað, hvernig á að miðla þessu. Í þessari umræðustofu ætlum við að leysa þetta.“ Aðalheiður Snæbjarnardóttir

Með Aðalheiði verða Reynir Smári Atlason, forstöðumaður sjálfbærnimála hjá Creditinfo, Jóhanna Hlín Auðunsdóttir, forstöðumaður loftslags og grænna lausna hjá Landsvirkjun, Sveinn Margeirsson, framkvæmdastjóri nýsköpunar og loftslagsmála hjá Brim og Andri Guðmundsson, meðstofnandi Vaxa.

Sjálfbær nýsköpun og hringrásarhagkerfið
Margrét Ormslev, umræðustjóri umræðustofunnar um sjálfbæra nýsköpun og hringrás kjarnar tilgang hennar vel:

„Auðlindir eru ekki ótakmarkaðar á jörðinni. Við þurfum að finna leiðir til að nýta þær betur til að viðhalda og auka lífsgæði auk þess að standa vörð um fjölbreytni vistkerfa. Það sem ég hef séð í gegnum árin er að einkageirinn er tilbúinn að hlaupa: fullt af fólki, fullt af fyrirtækjum, flottar hugmyndir og allir vilja að vinna saman að einhverskonar lausnum. Við þurfum í rauninni svolítið að sprengja út þetta… Hvar liggur óvissan? Hvað er í gangi núna og hvar liggja tækifærin á Íslandi? Ég vona að allir í herberginu geti staðið upp og deilt því hvort þau séu með einhverjar hugmyndir í maganum og í hvaða farveg getum við sett þessa hluti.“
.“

Margrét er formaður Tækniseturs og yfirmaður rekstrar hjá Transition Labs, sem byggist á því að leita uppi framúrskarandi erlend loftslagsverkefni, aðstoðar við að koma þeim á legg hérlendis og auðveldar þeim að skala fyrirtækin upp í rekstrarhæfa stærð.

Hugvitið er drifkrafturinn að framtíðar fyrirtækjum. Gefum hugmyndum líf og hugsum stórt! Til þess þurfum við að vinna saman þvert á geira og sérþekkingu. Krafturinn sem við leysum úr læðingi er magnaður þegar við komum saman og hlustum á hvort annað.

Með Margréti verða Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Eyrir Venture Management, Hafþór Ægir Sigurjónsson, forstöðumaður sjálfbærni hjá KPMG Ísland, Klara Sveinsdottir, framkvæmdastjóri gæða- og skráningarmála hjá Kerecis og Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK – Icelandic Startups.

Einföldum flókinn heim
Sérfræðingar og stjórnendur á Íslandi þurfa sífellt að sækja sér nýja þekkingu í heimi nýsköpunar, sjálfbærnilaga og -upplýsingagjafar. Breytingarnar gerast hratt og hendurnar fáar í litlu landi. Hlutverk Festu er hraða þekkingarsköpun, efla samstarf, hæfni og slagkraft á sviði sjálfbærni. Janúarráðstefna Festu er mikilvægur vettvangur á þeirri vegferð.

Verið öll hjartanlega velkomin til að taka þátt í deginum með okkur, fræðast, tengjast og taka þátt í stórum skrefum í átt að sjálfbæru og lifandi samfélagi. Þetta verður fróðleg, skemmtileg og gefandi ráðstefna. Allar upplýsingar og miðasölu má nálgast hér: Janúarráðstefna Festu 2023 – Lítum inn á við – Festa (samfelagsabyrgd.is)

Með miðakaupunum fylgir hlekkur þar sem umræðustofa er valin. 

Harpa Júlíusdóttir, verkefnastjóri Festu, Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, Ísabella Ósk Másdóttir, miðlunarstjóri Festu

Share by: