28. mars 2023

Festa og stýrihópur stjórnarráðsins um Sjálfbært Ísland hittust í síðustu viku þar sem Vegvísirinn sem Festa gaf út nýverið í tengslum við veigamiklar breytingar á sjálfbærnilögum og -upplýsingagjöf var kynntur fyrir hópnum.

Vegvísirinn er afrakstur vinnu meðal fjölda sérfræðinga innan og utan Festu samfélagsins og nær yfir nýmæli í löggjöf, upplýsingagjöf og aðferðarfræði um ábyrgar fjárfestingar og sjálfbæran rekstur, sem snerta fjármálastofnanir og fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum. Um er að ræða sögulegar breytingar sem eru ætlaðar að hafa stórtæk áhrif í þágu umhverfis og samfélags.

Íslensk fyrirtæki þurfa undirbúa sig vel undir þessar breytingar og laga sig hratt að þeim ef við ætlum að vera samkeppnishæf í ört breytilegu markaðsumhverfi. Festa mun því halda áfram að hafa þessi mál í fókus næstu misseri. Vegvísirinn er aðgengilegur öllum og má nálgast hér.

Hlutverk Sjálfbærs Íslands er m.a. að hraða aðgerðum til að ná markmiðum um sjálfbæra þróun eins og þau birtast í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og velsældaráherslum ríkisstjórnarinnar. Stýrihópurinn er skipaður með fulltrúum allra ráðuneyta auk fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Share by: