21. október 2022

Fasteignafélagið Reginn hlaut sérstök hvatningarverðlaun Festu og Creditinfo fyrir framúrskarandi sjálfbærni sem voru veitt á árlegum viðburði Creditinfo tileinkuðum framúrskarandi fyrirtækjum á Íslandi. Á viðburðinum var sérstök áhersla lögð á sjálfbærni, enda er það vegferð sem sífellt fleiri fyrirtæki eru að leggja áherslu á í rekstri sínum. 

Í dómnefndinni sátu Erla Tryggvadóttir, samskiptastjóri VÍS, Jón Geir Pétursson, dósent í umhverfis- og auðlindafræði og Sigríður Guðjónsdóttir, notendarannsakandi á þjónustu og nýsköpunarsviði Reykjavíkurborgar og stofnandi SPJARA. Við mat á fyrirtækjum er litið til ýmissa þátta sem tengjast sjálfbærum rekstri og hvernig þau stuðla að jákvæðum áhrifum á samfélagið og umhverfið.

Reginn mótaði sjálfbærnistefnu árið 2019 sem tók á umhverfislegum, félagslegum og efnahagslegum þáttum og setti sér mælanleg markmið. Fyrirtækið hefur markvisst unnið að því að minnka umhverfisáhrif fasteigna sinna, vottað þrjár stærstu þeirra með BREEAM vottun og boðið upp á græna leigusamninga þar sem leigutaki setur sér græn, mælanleg markmið. Þá var Reginn stærsti útgefandi grænna skuldabréfa á innlendum markaði á síðasta ári, fyrir utan opinbera aðila. Reginn hlaut einnig góða einkunn í UFS mati Reitunar á síðasta ári, eða 80 stig af 100, sem er hæsta einkunn sem fasteignafélag hefur fengið. Að mati Regins styrkir þessi sjálfbærnisstefna arðsemi fyrirtækisins til lengri tíma lítið.



„Með sjálfbærni að leiðarljósi verða til ný viðskiptatækifæri og fyrirtæki verða samkeppnishæfari “



Festa óskar Reginn hjartanlega til hamingju með þessa viðurkenningu – svo sannarlega vel að þessu komin!



Dómnefndin: Erla Tryggvadóttir, Jón Geir Pétursson og Sigríður Guðjónsdóttir

Share by: