25. febrúar 2021

Föstudaginn 26. febrúar 2021 undirrituðu 20 fyrirtæki og stofnanir Loftslagsyfirlýsingu Festu og Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Matthildur Ásmundardóttir bæjarstjóri skrifaði þá undir yfirlýsinguna fyrir hönd Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Undiritun fór fram í Nýheimum þekkingarsetri og í beinu streymi. Á fundinum var ný stefna fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð með áherslu á innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna kynnt ásamt því að frumsýnt var myndband um umhverfisvænar áherslur sveitarfélagsins.



Loftslagsyfirlýsingin var þróuð af Festu og Reykjavíkurborg og var fyrst undirrituð í Höfða árið 2015 af forstjórum yfir eitt hundrað fyrirtækja og stofnana í aðdraganda Parísarráðstefnunnar um loftslagsmál (COP21). Þátttakan var vonum framar, vakti athygli á alþjóðavettvangi og var kynnt á fyrrnefndri ráðstefnu árið 2015. Síðan þá hafa fleiri fyrirtæki bæst í hópinn. Árið 2019 bættist þá Akureyrarbær í hópinn og undirrituðu fyrirtæki og stofnanir bæjarins loftslagsyfirlýsingu á Degi náttúrunar 16.september 2019.



Með undirritun skuldbinda aðilar sig til að draga úr losun gróðurhúslofttegunda, minnka úrgang og að lokum mæla og birta árangur. Til að styðja við þessa vegferð býður Festa upp á loftslagsmæli sem er öllum aðgengilegur án endurgjalds.



Við óskum undirritunar aðilum hjartanlega til hamingju með þetta mikilvæga skref og hlökkum til að taka þátt í næstu skrefum í átt að kolefnishlutleysi – þau sem skrifuðu undir eru:

  • Glacier Adventure
  • Rósaberg ehf, jarðverktakar
  • Náttúrustofa Suðausturlands
  • Fallastakkur/Glacier Journey ehf 
  • Háskóli Íslands – Rannsóknasetur á Hornafirði
  • Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu
  • RARIK ohf.
  • Íslandshótel hf. – Fosshótel Vatnajökull og Fosshótel Jökulsárlón
  • Nýheimar þekkingarsetur
  • Brunnhóll gistiheimili
  • Medial, lögmannsþjónusta
  • Höfn Local Guide 
  • Konnekt ehf. 
  • Hótel Höfn 
  • Festi hf – N1 í Hornafirði
  • Vatnajökulsþjóðgarður
  • Veitingastaðurinn Úps 
  • Rafhorn (raf- og fjarskiptaþjónusta)
  • Hótel Jökull
  • Íslenska Gámafélagið


Á viðburðinum á Hornafirði í dag kynnti þá Hrund Gunnsteinsdóttir framkvæmdarstjóri Festu tæki og tól sem styðja við notkun Loftslagsmælis Festu. Þar ber helst að nefna kennslumyndband þar sem farið er í gegnum notkun mælisins skref fyrir skref, farið yfir hvaða gögn þarf til að mæla losun og hvar má nálgast þau – sjá hér. Auk þess hefur Festa tekið saman reynslusögur fimm fyrirtækja sem undirrituðu Loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar 2015 þar sem fulltrúar þeirra lýsa þeirra vegferð og leggja fram ráð til þeirra sem eru að hefja sína vegferð – sjá hér. Á næstu vikum mun félagið þá gefa út handbók fyrir þá aðila sem eru að vinna í því að setja sér stefnu í loftslagsmálum og hefja mælingar á losun.



Loftslagsmæli Festu má nálgast á Loftslagsmælir Festu (climatepulse.is) og í excel formi á heimasíðu Festu Loftslagmarkmið – Festa (samfelagsabyrgd.is)




Share by: