08. júni 2021

 Frá afhendingu verðlaunanna árið 2021. Svanhildur Hólm framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs   Íslands, Gunnhildur Arnarsdóttir framkvæmdastjóri Stjórnvísi, Hörður Arnarson forstjóri   Landsvirkjunar, Sigurður Pálsson forstjóri BYKO og Hrund Gunnsteinsdóttir   framkvæmdastjóri Festu

BYKO og Landsvirkjun hlutu í dag viðurkenningu fyrir eftirtektarverðustu samfélagsskýrslur ársins.


Að þessu sinni hljóta í fyrsta sinn tvö fyrirtæki viðurkenningu fyrir samfélagsskýrslu. Fyrirtæki sem eru ólík í eðli sínu og nálgast því sjálfbærni í rekstri með ólíkum hætti.  Áhersla er hjá báðum aðilum á vandaða framsetningu, gagnsæi og markvissa upplýsingagjöf. Skýrslurnar eru uppbyggileg innlegg í gerð og þróun skýrslna um samfélagsábyrgð og sjálfbærni. 

Alls bárust 28 tilnefningar í ár og voru það 24 skýrslur sem hlutu tilnefningu sem er um 30% aukning frá árinu á undan. Í dómnefnd sátu Tómas N. Möller yfirlögfræðingur Lífeyrissjóðs Verslunarmanna, Hulda Steingrímsdóttir umhverfisstjóri Landspítala og Kjartan Sigurðsson lektor við Háskólann í Twente í Hollandi

Hér má nálgast hlekk á allar þær skýrslur sem voru tilnefndar – Sjálfbærni – Festa 


Viðurkenningin er samstarfsverkefni Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð, Stjórnvísis og Viðskiptaráðs Íslands og er þetta fjórða sinn sem viðurkenningin er veitt. Markmiðið með viðurkenningunni fyrir Samfélagsskýrslu ársins er að hvetja fyrirtæki til að setja sér mælanleg markmið og birta reglulega, með vönduðum hætti, upplýsingar um hvernig samfélagsábyrgð og sjálfbærni í rekstri skilar þeim og samfélaginu auknum ávinningi. Skýr stefna, framkvæmd og upplýsingagjöf varðar leið að farsælum rekstri. 

Hörður Arnarsson forstjóri Landsvirkjunar og Sigurður Pálsson forstjóri BYKO taka við viðurkenningum fyrir hönd sinna fyrirtækja

Annars vegar er um að ræða fyrirtæki í smásölu sem er að stíga sín fyrstu skref í gerð samfélagsskýrslu en þetta er önnur skýrsla fyrirtækisins. Það selur aðföng til stórs hóps neytenda sem og fagaðila í starfsemi sem hefur veruleg umhverfisáhrif og byggir rekstur sinn á margþættri virðiskeðju. 

Hins vegar er það fyrirtæki sem á langa sögu í uppbyggingu þekkingar og stefnumótunar tengdri samfélagsábyrgð. Það grundvallar starfsemi sína á nýtingu náttúruauðlinda sem hefur víðtæk bein og óbein áhrif innanlands. Fyrirtækið byggir á mikilli þekkingu og mannauði tengdum sjálfbærni og á í margþættum samskiptum við innlenda og erlenda haghafa. 

Þótt nálgun fyrirtækjanna á sjálfbærni sé ólík leggja þau bæði áherslu á vandaða framsetningu, gegnsæi og markvissa upplýsingagjöf. Skýrslurnar eru því uppbyggileg innlegg í gerð og þróun skýrslna um samfélagsábyrgð og sjálfbærni. 

Í áliti dómnefndar segir að skýrsla Landsvirkjunar hafi verið bæði ítarleg og markviss. Hún gerir vel grein fyrir lykiláherslum varðandi sjálfbærni í rekstri með vísan til umhverfis, samfélags og efnahags. Umfjöllun og áherslur tengjast skýrt kjarnastarfsemi fyrirtækisins. Áherslurnar byggja á greiningu og samtali við haghafa sem og þáttum í rekstri sem eru mikilvægir samkvæmt mikilvægisgreiningu

Um skýrslu BYKO segir dómnefnd af eftirtektarvert sé að hún geri grein fyrir rekstrarmódeli fyrirtækisins og framtíðarsýn varðandi samfélagsábyrgð. Skýrslan fjalli um innleiðingu á stefnum, markmiðum, mælikvörðum og árangri varðandi sjálfbærni á markvissan og skýran hátt. Gerð er grein fyrir því sem vel er gert en einnig er á opinn hátt gerð grein fyrir áskorunum og markmiðum sem hafa ekki náðst. Þá er áhersla lögð á fræðslu starfsfólks, verktaka og birgja varðandi sjálfbærni.

Framkvæmdarstjórn BYKO ásamt þeim sérfræðingum sem komu að gerð skýrslunnar

“Það hefur mikið gildi fyrir okkar hagaðila að BYKO birti upplýsingar um sjálfbærnivegferð fyrirtækisins. Það hefur hvetjandi áhrif bæði innan fyrirtækisins sem og utan. Með því að segja frá sem er verið að gera, taka þátt í sjálfbærniverkefnum, fræða starfsfólk og viðskiptavini, bjóða upp á vistvæna valkosti í byggingarefnum, þá hefur það hvetjandi áhrif á alla. Við erum að taka ábyrgð í virðiskeðjunni, með tölum, orðum og myndum. Við erum að sýna jákvætt fordæmi og viljum vera fyrirmynd og hvatning fyrir aðra” segir Berglind Ósk Ólafsdóttir sérfræðingur í sjálfbærni hjá BYKO.



„Við erum að taka ábyrgð í virðiskeðjunni, með tölum, orðum og myndum.“



 Hörður Arnarson forstjóri, Kristín Linda Árnadóttir aðstoðarforstjóri, Jóhanna Harpa   Árnadóttir sérfæðingar í sjálfbærni ásamt teymi Landsvirkjunar

“Við hjá Landsvirkjun höfum allt frá stofnun fyrirtækisins horft til þess að hafa jákvæð áhrif á samfélag og umhverfi og leitum sífellt nýrra leiða til að auka sjálfbærni í starfsemi okkar” segir Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar. “Það er þess vegna einkar ánægjulegt að hljóta viðurkenningu sem þessa, og staðfesting á því að starf okkar er að skila sér, bæði sem okkar framlag til sjálfbærari veraldar og einnig – vonandi – sem innblástur fyrir önnur fyrirtæki sem vilja gera vel í þessum mikilvæga málaflokki”



„Það er þess vegna einkar ánægjulegt að hljóta viðurkenningu sem þessa, og staðfesting á því að starf okkar er að skila sér“



 Hrund Gunnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Festu, Konráð Guðjónsson   aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands og fundargestir.

Á viðburðinum, sem fram fór í Húsi atvinnulífsins í dag 8. júní, hélt Hrund Gunnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Festu erindi þar sem hún lagði áherslu á að upplýsingagjöf um sjálfbærni þurfi að endurspegla árangursríkar aðgerðir til breytinga og áhrifa á rekstur á náttúru, fólk og stjórnarhætti, “sjálfbærni er ekki viðbót við rekstur, hún er nær því að vera tilgangur hans í dag”.

Fundinum stjórnaði Konráð Guðjónsson aðstoðar framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og Íris Ösp Björnsdóttir forstöðumaður viðskiptaþróunar og rekstrar hjá Nasdaq Iceland stýrði panel umræðum.




Share by: