05. október 2021

Í dag gaf verkefnastjórn stjórnvalda um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna út verkfærakistu um innleiðingu fyrirtækja á markmiðunum. Verkfærakistunni er ætlað að vera fyrirtækjum til leiðbeiningar um hvernig þau geta lagt sitt af mörkum í þágu heimsmarkmiðanna en fyrr á þessu ári gaf verkefnastjórnin út sambærilega verkfærakistu fyrir sveitarfélög.

„Heimsmarkmiðin eru mikilvægur leiðarvísir til að ná samfélagslegum markmiðum, markmiðum í loftslagsmálum og efnahagsmálum. Hins vegar þurfum við tól og tæki til að geta fylgt þessum leiðarvísi og verkfærakistan gerir þau tól og tæki aðgengileg fyrir atvinnulífið í landinu,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Verkfærakistan veitir fyrirtækjum leiðbeiningar um hvernig þau geta lagt sitt af mörkum til heimsmarkmiðanna með því að aðlaga starfsemi sína, áætlanir sem og árangursmælingar að markmiðunum. Hún byggir á erlendum fyrirmyndum auk dæma frá Íslandi og þá var Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni, ráðgjafa einnig innan handar um efnistök
og innihald.

„Útgáfa verkfærakistunnar kemur á mikilvægum tímapunkti. Markmiðunum verður ekki náð án aðkomu atvinnulífsins og skilvirkrar samvinnu á milli ólíkra aðila á markaði, sem og opinbera og einkageirans. Þau fyrirtæki sem þegar hafa innleitt heimsmarkmiðin inn í rekstur sinn vita af eigin raun hvernig sú vinna skilar sér í góðum starfsanda og betri rekstri. Fyrir þau fyrirtæki sem eru að hefja sína vegferð er þessi verkfærakista einstök hvatning og aðgengilegur leiðarvísir,“ segir Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu.

Verkfærakistuna má nálgast á vef heimsmarkmiðanna, 

www.heimsmarkmidin.is/verkfaeri

„Heimsmarkmiðin eru mikilvægur leiðarvísir til að ná samfélagslegum markmiðum,markmiðum í loftslagsmálum og efnahagsmálum.“

Við hjá Festu erum afar stolt af þessu samstarfi við Verkefnastjórn stjórnvalda um heimsmarkmiðin. Verkfærakistan er unnin af einum reyndasta ráðgjafa landsins á sviði heimsmarkmiðanna og sjálfbærni, Fanneyju Karlsdóttur, sem einnig er fyrrverandi formaður Festu.

Verkfærakistan verður aðgengileg á Leiðarvísi Festu og inná þeim hluta heimasíðu okkar sem tileinkaður er heimsmarkmiðunum.

„Fyrir þau fyrirtæki sem eru að hefja sína vegferð er þessi verkfærakista einstök hvatning og aðgengilegur leiðarvísir“



Share by: