11. 10 2023 - 08:30-10:00
Bláa Lónið hf. býður aðildarfélögum Festu á tengslafund í starfsstöð fyrirtækisins í Urriðaholti, 11. október kl. 08:30-10:00.
Á fundinum munu Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu-, markaðs- og vöruþróunarsviðs, og Fannar Jónsson, gæða- og umhverfisstjóri, taka á móti gestum og segja frá sjálfbærnivegferð félagsins. Sérstaklega verður rætt um alþjóðlega vottun B Corp sem Bláa Lónið hlaut á dögunum.
Auk baðlónsins víðfræga í Svartsengi hefur Bláa Lónið getið sér gott orð fyrir rekstur heilsulinda, gistiþjónustu og veitingastaða. Þá hefur húðvörulína félagsins hlotið mikla eftirtekt en hún byggir á klínískum rannsóknum á eiginleikum jarðsjávarins.
Frá upphafi hefur markmið Bláa Lónsins verið að stuðla að aukinni vellíðan með ábyrgri fjölnýtingu náttúruauðlinda. Þannig hefur félagið lagt áherslu á umhverfismál og ábyrgð í viðskiptaháttum með það að leiðarljósi að skapa verðmæti fyrir náttúru og nærsamfélag.
Alþjóðleg vottun B Corp, sem félagið hlaut á dögunum, staðfestir góðan árangur í sjálfbærni- og samfélagsmálum. Markmið B Corp vottunar er að umbylta viðskiptaháttum með því að fá fyrirtæki til að meta þau áhrif sem starfsemi þeirra hefur — til dæmis á umhverfi, einstaklinga og samfélög — til jafns við fjárhagslegan gróða. Í úttektarferlinu er því litið til þessara þátta auk þess sem stjórnarhættir eru rýndir. Á fundinum verður sérstaklega fjallað um vottunina, vottunarferlið og vegferð Bláa Lónsins á þessum vettvangi, nú og til framtíðar.
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu-, markaðs- og vöruþróunarsviðs
Menntavegur 1
101 Reykjavík
festa@sjalfbaer.is